Félagsmiðstöðin Skarðið í Skarðshlíðarskóla bar sigur úr bítum í hönnunarkeppninni Stíl en lokakeppnin var haldin í íþróttahúsinu Digranesi 27. janúar sl.
Í liði Skarðsins voru þær Aníta Guðrún Andradóttir, Þórdís Sif Sindradóttir, Kolbrún Karó Tobíasdóttir og Nicole Jóna Jóhannsdóttir en liðið höfðu þær kallað Þokuna en liðið sigraði í keppni um bestu fatahönnunina í hafnfirsku undankeppninni.
Hafnfirskir skólar áttu þrjá hópa í lokakeppnninni, Skarðshlíðarskóli, Víðistaðaskóli og Öldutúnsskóli.

Hraunið í Víðistaðaskóla fékk sérstaka viðurkenningu
Lið Hraunsins í Víðistaðaskóla fékk eina af þremur viðurkenningum í lokakeppninni, en liði fékk verðlaun fyrir besta hárið, eins og þær gerðu í hafnfirsku undankeppninni. Í liðinu voru þær Ólafía Þóra Klein, Sóley Katrín Sigurðardóttir, Emilía Guðlaug Klein og Karen Tan.

Samfés, Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, heldur keppnina. Yfir 80 unglingar komu saman í 31 hópi. Eins og segir á vef samtakanna sýndi hver hópur að sköpunarkraftur ungs fólks er takmarkalaus.