fbpx
Mánudagur, janúar 6, 2025
HeimFréttirSkátar taka í notkun salernishús við Hvaleyrarvatn

Skátar taka í notkun salernishús við Hvaleyrarvatn

Á morgun, fimmtudag kl. 14.30 verður nýtt salernishús tekið í notkun við sunnanvert Hvaleyrarvatn, við skátaskálann Skátalund.

Húsið, sem byggt er af eldri skátum í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, mun bæði þjóna starfsemi á svæði skátanna en verður einnig opið almenningi og kær viðbót við kamarhús sem eru norðan við vatnið. Í húsinu eru tvö vatnssalerni í hituðu rými ásamt vöskum. Útivaskar verða einnig svo auðvelt sé að bæta á vatnsflöskuna eða þvo sér. Háþróuð rotþró, sem í raun er hreinsistöð var sett upp til að tryggja að engin mengun skili sér í Hvaleyrarvatnið og kemur hún í stað frumstæðrar rotþróar sem hefur verið á svæðinu í áratugi.

Salernishúsið er neðan við skátaskálann Skátalund

Það var að frumkvæði skátanna í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði, öflugu félagi eldri skáta, sem bygging salernishússins hófst. Hafnarfjarðarbær leggur til hluta fjármagns til byggingarinnar en skátarnir hafa lagt til alla vinnu og fengið mikinn stuðning í samfélaginu en bæði fyrirtæki og einstaklinga hjálpuðu til að þetta verkefni yrði að veruleika.

Teikning af húsinu

Skátarnir hafa einnig sett upp upplýsingaspjöld neðan við svæðið sitt og við innkeyrsluna að því og eru þar m.a. merktir inn göngustígar en svæði skátanna er opið almenningi sem eru þó beðnir að taka tillit til starfsemi á svæðinu. Hafa skátarnir byggt þarna upp útivistarparadís til nota í skátastarfi og nýtist jafnframt almenningi.

Stór tæki þurfti við steypuvinnuna.
Gámaeining sem byggt var utan um var sett á steypta plötu. Ljósm.: Geir Gunnlaugsson.

Framkvæmdir hófust fyrir réttu ári og eru salernin tilbúin til notkunar en eftir er að setja gras á þakið og ljúka við fínni frágang. Opnun hefur tafist aðeins vegna Covid-19 og að sjálfsögðu er fólk hvatt til að virða sóttvarnarreglur á staðnum.

Byggð hefur verið upp skátaparadís á svæðinu

Mikil starfsemi hefur verið í skátaskálanum og á svæðinu en auk starfsemi skátanna hefur skálinn verið leigður út til ýmissi viðburða til að fjármagna endurbætur og nýframkvæmdir á svæðinu.

Leggja þurfti nýjar lagnir.
Fjölmargir lögðu lið

Opið kl. 8-22

Salernir eru opin kl. 8-22 alla daga og sjálfvirkur búnaður sér um læsingar. Skátarnir hvetja alla til að ganga vel um til að tryggja að sem flestir geti nýtt aðstöðuna um næstu framtíð.

Vaskar verða á bakhlið hússins.

St. Georgsgildið í Hafnarfirði

Miðvikudaginn 22. maí 1963 var St. Georgsgildið í Hafnarfirði stofnað. Þá komu eldri skátar búsettir í Hafnarfirði saman í Hraunbyrgi, félagsheimili Hraunbúa. Tilgangur fundarins var að stofna St. Georgsgildi, samtök eldri skáta í Hafnarfirði. Tveimur kunnum skátaforingjum í Reykjavík hafði verið boðið á fundinn. Það voru þeir Hans Jörgenson skólastjóri og Frank Michelsen úrsmiður. Hans hafði framsögu á fundinum og gerði grein fyrir starfsgrundvelli St. Georgsskáta. Þegar hann hafði lokið máli sínu, var samþykkt að stofna St. Georgsgildið í Hafnarfirði. Síðan fóru allir fundarmenn með heiti St. Georgsskáta og rituðu nöfn sín í fundargerðabók því til staðfestingar. Stofnfélagar voru 41.

Í Riddaralundi um 1978, em nú er umlukinn háum trjám

Fyrsta stjórn St. Georgsgildisins í Hafnarfirði var þannig skipuð: Eiríkur Jóhannesson gildismeistari, Lára Janusdóttir varagildismeistari, Bragi Guðmundsson ritari, Svavar Jóhannesson gjaldkeri, Ragnheiður Kristinsdóttir meðstjórnandi. Bragi Guðmundsson óskaði eftir því í októbermánuði 1963 að vera leystur frá stjórnarstörfum og var þá Jón Kr. Jóhannesson kjörinn ritari í hans stað.

Á fyrsta starfsári gildisins voru haldnir sjö gildisfundir, farið í eina útilegu, komið á fót happdrætti sem gaf góðar tekjur, jólatrésskemmtun var haldin í samvinnu við Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði og árshátíð gildisins sóttu 90 manns. Af þessu má sjá að rösklega var af stað farið.

Skátalundur

St. Georgsgildið í Hafnarfirði á útivistarskála við Hvaleyrarvatn. Hann heitir Skátalundur og var vígður 25. júní 1968.

Efnið í hann kom tilsniðið frá Noregi og kostaði 86.310,65 krónur á þess tíma verðlagi. Árið 1970 var pallurinn byggður við húsið og kamína keypt til upphitunar. Hafist var handa við að girða landið umhverfis Skátalund 1972 og því var að mestu lokið 1973. Á árunum 1978 og 1979 var Skátalundi breytt og húsið stækkað.æ Til þess var varið 650.000 krónum. Haustið 2001 var rafmagn og vatn leitt að skálanum.

Þegar skátarnir komu á staðinn voru nánast engin tré við Hvaleyrarvatn og svæðið alger berangur. Frá þeim tíma hefur svæðið bæst í mikla útivistarparadís og og munar þar mestu um veru Skógræktarfélags Hafnarfjarðar á svæðinu.

Starfsemin

Starfsemi St. Georgsgildisins í Hafnarfirði er og hefur verið fjölþætt. Fundir eða aðrar samkomur eru haldnar mánaðarlega yfir vetrarmánuðina. Á fundum er mikið sungið, fólk fengið til að halda stutt erindi um ýmis forvitnileg efni, spjallað er saman og glaðst yfir meðlæti og kaffibolla. Þá eru haldin stutt námskeið eða fræðslukvöld tengd hinum ýmsu áhugasviðum félagsmanna.

Eitt af markmiðum eldri skáta er að styðja við skátastarfið.

Starfið er fjölbreytt og fer eftir áhugamálum og hugarflugi gildisfélaga á hverjum tíma. Því eru engin takmörk sett, en þátttaka er frjáls og óbundin. Þeir kom hverju sinni sem áhuga hafa á því sem er þar að gerast.

Markmið

Markmið St. Georgsgildisins í Hafnarfirði eru að reyna að lifa lífinu í samræmi við hugsjónir skátahreyfingarinnar, að flytja hinn sanna skátaanda inn í samfélagið sem við lifum og störfum í, að veita skátastarfinu stuðning, að útbreiða skátahugsjónina, að stuðla að varðveislu skátaminja og vera tengiliður milli skátahreyfingarinnar og eldri skáta og annarra velunnara hennar.

Félagar

Gildisskátar, fullgildir félagar í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði, geta þeir orðið sem náð hafa 18 ára aldri, hafa verið skátar eða hafa áhuga á starfi skátahreyfingarinnar.

Skátarnir að störfum

St. Georgsgildið er aðili að Skátagildunum á Íslandi, samtökum skátagilda á Íslandi og sömuleiðis er það í heimssamtökum eldri skáta.

Facebook síða Skátalundar

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2