Skautafélag Hafnarfjarðar var formlega stofnað 11. júní sl.
Helgi Páll Þórisson, formaður Íshokkísambands Íslands, segir að til þeirra hafi leitað áhugasamir Hafnfirðingar, sem æfa skautaíþróttir í Reykjavík, og spurt ekki væri tímabært að koma upp skautafélagi og varanlegri skautaaðstöðu í Hafnarfirði ekki í ósvipaðri mynd og á Akureyri.
Nokkur fjöldi Hafnfirðinga æfir bæði íshokkí og listhlaup í Reykjavík og segir Helgi Páll að því sé klárlega grundvöllur fyrir því að koma á fót skautafélagi sem getur vaxið og dafnað í íþróttabænum Hafnarfirði.
Skautahöll forsenda
Helgi Páll segir að algjör forsenda þess að þetta félag nái að vaxa og dafna sé að komið verði upp skautaaðstöðu í Hafnarfirði þar sem eftirspurnin eftir ístíma fyrir æfingar, keppni og almenning sé meiri heldur en þær skautahallir í Reykjavík og Akureyri geti annað. Segir hann einnig gríðarlegan áhuga erlendra aðila á að koma hingað til lands með mót í íshokkí, listhlaupi og krullu og þar séu gríðarleg tækifæri.
Stofnfélagar voru 39 og meðal þeirra voru Vilhelm Már Bjarnason, Viktor Heiðarsson, Andri Freyr Magnússon, Ingólfur Bjarnason, og Jón Trausti Guðmundsson, allt þrautreyndir skautamenn úr bæði Skautafélagi Reykjavíkur og Fjölni sem allir eru búsettir í Hafnarfirði.
Alls sóttu rétt rúmlega 30 manns stofnfundinn í fundarsal ÍSÍ sem var afar jákvæður að sögn Helga og var greinilegt að það er mikill hugur í stofnfélögum og ekki ólíklegt að félagið eigi eftir að vaxa nokkuð hratt og myndarlega á næstu misserum.
Fyrstu stjórn félagsins skipa:
- Þórhallur Viðarsson, formaður
- Ingólfur Bjarnason, meðstjórnandi
- Elvar Freyr Hafsteinsson, meðstjórnandi
- Ellert Þór Arason, meðstjórnandi
- Þóra Dröfn Guðmundsdóttir, meðstjórnandi
Búið er að gera Facebook síðu fyrir Skautafélagið og þar má sjá merki félagsins.