fbpx
Sunnudagur, febrúar 23, 2025
HeimFréttirSkautafélag Hafnarfjarðar hefur verið stofnað

Skautafélag Hafnarfjarðar hefur verið stofnað

Fjölmargir Hafnfirðingar iðka skautaiðkun og vilja skautahöll í Hafnarfirði

Skautafélag Hafnarfjarðar var form­lega stofnað 11. júní sl.

Helgi Páll Þórisson, formaður Íshokkí­sambands Íslands, segir að til þeirra hafi leitað áhugasamir Hafn­firð­ingar, sem æfa skautaíþróttir í Reykja­vík, og spurt ekki væri tímabært að koma upp skautafélagi og varanlegri skauta­aðstöðu í Hafnarfirði ekki í ósvipaðri mynd og á Akureyri.

Nokkur fjöldi Hafnfirðinga æfir bæði íshokkí og listhlaup í Reykjavík og segir Helgi Páll að því sé klárlega grund­völlur fyrir því að koma á fót skauta­félagi sem getur vaxið og dafnað í íþróttabænum Hafnarfirði.

Skautahöll forsenda

Helgi Páll segir að algjör forsenda þess að þetta félag nái að vaxa og dafna sé að komið verði upp skautaaðstöðu í Hafnarfirði þar sem eftirspurnin eftir ístíma fyrir æfingar, keppni og al­menn­ing sé meiri heldur en þær skautahallir í Reykjavík og Akureyri geti annað. Segir hann einnig gríðarlegan áhuga erlendra aðila á að koma hingað til lands með mót í íshokkí, listhlaupi og krullu og þar séu gríðarleg tækifæri.

Stofnfélagar voru 39 og meðal þeirra voru Vilhelm Már Bjarnason, Viktor Heið­arsson, Andri Freyr Magnússon, Ingólfur Bjarna­­son, og Jón Trausti Guð­munds­son, allt þrautreyndir skauta­menn úr bæði Skautafélagi Reykjavíkur og Fjölni sem allir eru búsettir í Hafnar­firði.

Alls sóttu rétt rúmlega 30 manns stofn­­fundinn í fundarsal ÍSÍ sem var afar jákvæður að sögn Helga og var greinilegt að það er mikill hugur í stofnfélögum og ekki ólíklegt að félagið eigi eftir að vaxa nokkuð hratt og myndarlega á næstu misserum.

Fyrstu stjórn félagsins skipa:

  • Þórhallur Viðarsson, formaður
  • Ingólfur Bjarnason, meðstjórnandi
  • Elvar Freyr Hafsteinsson, meðstjórnandi
  • Ellert Þór Arason, meðstjórnandi
  • Þóra Dröfn Guðmundsdóttir, meðstjórnandi

Búið er að gera Facebook síðu fyrir Skautafélagið og þar má sjá merki félagsins.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2