Tillaga að deiliskipulagi Flensborgarhafnar, sem afmarkast af Strandgötu, Fornubúðum og sjó var kynnt á fundi hafnarstjórnar í morgun.
Með henni fylgir ítarleg greinargerð þar sem markmiðum deiliskipulagsins er lýst en skv. því er almennt gert ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæðum húsanna en íbúðum á efri hæðum en ekki er gert ráð fyrir háreistum húsum.
Deiliskipulagstillagan er gerð af Batteríinu arkitektum og JVST í Hollandi en Mannvit veitti umferðar- og hljóðráðgjöf og Strendingur veitti hafnarráðgjöf. Hafnarfjarðarbær er verkkaupinn en svæðið er á skilgreindu hafnarsvæði og því kemur líka til kasta hafnarstjórnar.
Að sögn formanns hafnarstjórnar, Kristínar Thoroddsen, þá mun tillagan verða tekin til afgreiðslu í ágúst en nú er verið að leggja loka höndina á hana. „Svæðið er mjög spennandi með miklum tækifærum bæði fyrir verslun og þjónustu og ekki síður til íbúðabyggðar. Gaman verður að sýna tillögurnar þegar þær verða fulltilbúnar,“ segir Kristín í samtali við Fjarðarfréttir.
Öll gögn málsins höfðu fyrir mistök verið lögð fram með fundargerð en svo tekin út þar sem ekki er vilji til að birta gögn á meðan þau eru á umræðustigi.
Hugmyndasamkeppni
Árið 2018 efndi Hafnarfjarðarbær til hugmyndasamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæðið. Tvær tillögur báru sigur úr býtum. Vinningstillögurnar voru sameinaðar í eina sem síðar voru þróaðar í rammahluta aðalskipulags fyrir svæðið.
Markmið rammaskipulagsins var að auka samtvinnun bæjar og hafnar með þéttri og blandaðri byggð í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi.
Aðalskipulagsbreyting fyrir svæðið er sögð í anda Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins, en þar er mörkuð stefna um að draga úr útþenslu byggðar og jafnframt er lögð áhersla á skilvirkar almenningssamgöngur.
Forsendur deiliskipulagsins
Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að við hönnun Flensborgarhverfis skuli tekið tillit til nærliggjandi byggðar og umhverfis. Það er t.d. gert með því að tryggja sjónlínur í gegnum hverfið. Þar sem talsverður hæðarmunur er á landi svæðisins og aðliggjandi svæðis er víða möguleiki á að sjá yfir byggingar skipulagsins.
Fram kemur að Flensborgarhöfn sé lífleg smábátahöfn þar sem skemmtileg blanda smábátaútgerðar, frístundabáta og æskulýðs og félagsstarf setji mark sitt á mannlíf og yfirbragð svæðisins. Skipulagið tekur mið að því að lífið í nýju íbúða- og þjónustuhverfi verði samofið áframhaldandi starfsemi á höfninni þannig að sögu sjósóknar í Hafnarfirði sé haldið áfram og gerð góð skil. Í þessu felist mikil verðmæti sem halda skuli í og taka tillit til við þróun og uppbyggingu skipulagsins.
Hugmyndafræði deiliskipulagsins
Hugmyndin að skipulagi Flensborgarhafnar er sögð innblásin af sögulegu byggðarmynstri Hafnarfjarðar og miði af því að skapa lífræna tengingu á milli húsa og auðga mannlífið á milli þeirra. Í stað nútímalegrar uppbyggingar sem oft einkennist af reglufestu randbyggð með inngörðum og afgirtum lóðum er lögð áhersla á opið flæði og gott aðgengi um svæðið í heild sem leiði af sér spennandi mannlíf, rými og aukna notkun.
Lykilatriði í skipulaginu er sagt hafnarteppið sem sé sjónrænt samhangandi yfirborð svæðisins alls. Þetta samhangandi yfirborð tryggi samnýtingu svæðisins, fagurfræðileg gæði og ýti undir tilfinningu fyrir samhengi húsa og útisvæða. Undantekningar frá hafnarteppinu verði gerðar til að fella inn græn svæði og þar sem starfsemi krefst aðgangsstýringar.
Leitast verður við að halda í byggingar á svæðinu eins og kostur er. Að öðrum kosti verði þær endurbyggðar í svipaðri mynd. Verbúðarhúsin við Fornubúðir, Íshús Hafnarfjarðar og Siglingaklúbburinn Þytur eru órjúfanleg arfleið svæðisins og eru lykilatriði í uppbyggingunni. Dráttarbraut gamla slippsins verður áberandi á svæðinu og viðheldur beinni tengingu við sjóinn. Þessi síðasta fjörutenging bæjarins verður eitt af hjartarýmunum og tengir iðnaðarsögu svæðisins við framtíð þess sem líflegt borgarrými.
Almennt er gert ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæð bygginga þar sem fjölbreytt þjónusta verður höfð að leiðarljósi. Þar má nefna kaffihús, veitingastaði, smávöruverslanir o.þ.h.
Skilmálar er varða verslun, þjónustu og atvinnulíf á svæðinu taka mið af því að vera staðsett í blandaðri byggð og munu leyfi og annað miðast við það. Skýr aðgreining skal vera á milli atvinnustarfsemi á jarðhæð og efri hæða sem eru íbúðir.