Skipulags- og byggingarráð hefur samþykkt að auglýsa breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Breytingin nær til suður og austur hluta Suðurhafnar, þ.m.t. Flensborgarhafnar. Reiturinn sem breytingin nær til er merktur sem H1 (Suður-höfn) og H2 (Flensborgarhöfn) í aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Landnotkun reitsins er hafnarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.
Til grundvallar megin hluta þessarar skipulagsafmörkunar liggur rammaskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis, þar með talið svæði utan deiliskipulagsmarka Suðurhafnar er liggur með strönd fjarðarbotnsins í átt að miðbæ Hafnarfjarðar.
Aðalskipulagsbreytingin nær einnig til svæðis sem afmarkast af Hvaleyrarbraut, Lónsbraut og Stapagötu, að vestur mörkum Suðurhafnarreits, en sá hluti breytingarinnar fellur ekki undir rammaskipulagið.
Í gildandi aðalskipulagi og samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er stefnt að því að fullnýta byggingar-möguleika miðlægra svæða og lögð áhersla á að fjarlægðir milli íbúa og starfa verði styttar með blandaðri byggð. Gert er ráð fyrir að byggð á svæðinu verði þétt í samræmi við stefnu aðalskipulagsins um þéttingu á vannýttum svæðum, sem eru í göngufjarlægð frá miðbænum.
Einkum er reiknað með þjónustu, atvinnustarfsemi og íbúðum á svæðinu. Áhersla verði á heildstæða blandaða byggð með borgar- eða kaupstaðaeinkennum í vönduðu umhverfi og raunhæfum aðstæðum fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi í sátt við aðliggjandi hverfi og hafnarstarfsemi.
Breytingar á landnýtingarflokkum:
- H1; Suðurhöfn verður að hluta til íbúðarsvæði ÍB15 (milli Óseyrarbrautar og Hvaleyrarbrautar) og miðsvæði M6 og M7.
- H2; Flensborgarhöfn breytist í miðsvæði M5 sem með stækkun út í sjó verður 4 ha.
- H6; Hamarshöfn, ný smábátahöfn og 5 m strandræma meðfram M5 er 0,7 ha.
Verður hún við Strandgötu, framan við Vesturhamarinn.
Tillögur skipulags- og byggingarráðs hefur verið vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn.