fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSkipulagsmálBæjarstjórn samþykkti deiliskipulag Ásvallabrautar

Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulag Ásvallabrautar

Erfitt að sjá hvort aðalskipulagsbreyting hafi verið samþykkt líka

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar frestaði afgreiðslu á deiliskipulagi Ásvallabrautar í lok síðasta kjörtímabils og vildi með því gefa nýrri bæjarstjórn tækifæri til að skoða málið. Málið var svo tekið upp á bæjarstjórnarfundi sl. miðvikudag og samþykkt en fjölmargar athugasemdir hafa komið frá íbúum í Áslandi 3 þar sem aðallega hafa verið gerðar athugasemdir vegna nálægðar brautarinnar við hús í hverfinu.

Í svörum skipulags- og byggingarráðs við athugasemdum íbúanna er á það bent að þegar hafi verið tekið tillit til ábendinga íbúa, brautin var færð fjær húsunum en upphaflegt skipulag gerði ráð fyrir auk þess sem ýmsar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að hljóðvist væri viðunandi næst brautinni.

Ásvallabrautin tengir Skarðshlíðarhverfið við Kaldárselsveg og verður með eina akrein í hvora átt og 50 km/klst. hámarkshraða.

Bæjarstjórnin samþykkti með 10 atkvæðum að erindinu verði lokið í samræmi við 2. mgr. 32. gr. laga 123/2010 og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Adda María situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

Vað aðalskipulagsbreytingin ekki samþykkt?

Í fundargerðinni og við kynningu á málinu í bæjarstjórn kemur aðeins fram að þarna sé verið að gera deiliskipulagsbreytingu en að mati fundarritara, lögfræðingi hjá Hafnarfjarðarbæ, þá var einnig verið að samþykkja aðalskipulagsbreytingu og vísar hann þá í að í afgreiðslunni sé vísað í grein skipulagslaga um aðalskipulag. Hins vegar kemur orðið aðalskipulag hvergi fyrir í kynningu á málinu né í kynningu forseta bæjarstjórnar á tillögunni í upphafi málsins né þegar það var tekið til afgreiðslu.

Öllum skilyrðum fullnægt en bókun ráðsins hefði mátt verið skýrari

Í svari Ívars Bragasonar, fundarritara og lögfræðings bæjarins segir hann að öll fjormskilyrði í málinu hafi verið uppfyllt en fellst þó á að vissulega hefði bókun skipulags- og byggingarráðs mátt vera skýrari. Svar hans fer hér á eftir:

Málið kom fyrst inn bæjarstjórn 23. maí sl. og var inngangurinn svohljóðandi:

„11.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 15.maí sl.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 14/2 2018 breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar dags. 12.05.2016, 2013-2025 og hún að hún yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga 123/2010. Einnig var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi aftur samhliða framangreindri aðalskipulagsbreytingu ásamt breytingum á skipulagsmörkum við Ásland 3 og Hlíðarþúfum skv. 1. mgr. 41. gr skipulagslaga 123/2010. Skipulags- og byggingarráð hafði samþykkt erindið á fundi sínum þann 9. feb. s.l. Auglýsingatími er liðinn og athugasemdir bárust. Lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa. Á fundi ráðsins þann 30. apríl sl. var óskað eftir viðbótar hljóðgreiningu. Helga Stefánsdóttir mætir á fundinn og gerir grein fyrir henni.

Skipulags- og byggingarráð samþykkir framlagða umsögn skipulagsfulltrúa. Skipulags- og byggingarráð leggur til við bæjarstjórn að erindinu verði lokið í samræmi við 2. mgr. 32. gr. laga 123/2010 og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga 123/2010.“

Afgreiðslu málsins var þá frestað en tekið fyrir að nýju í bæjarstjórn þann 20. júní sl. Niðurstaðan á þeim fundi var að vísa málinu aftur skipulags- og byggingarráðs.

Málið var tekið fyrir i skipulags- og byggingarráði þann 26. júní þar sem niðurstaðan var svohljóðandi:

„Skipulags- og byggingarráð samþykkir umsögn skipulagsfulltrúa, dagsetta 25. apríl 2018 og vísar málinu aftur til afgreiðslu í bæjarstjórn og leggur til að erindið verði samþykkt. Skipulags- og byggingarráð leggur til að málið verði tekið fyrir eftir sumarleyfi bæjarstjórnar eða 22. ágúst nk.“

Ráðið vísar málinu því óbreyttu til bæjarstjórnar.

Að lokum var málið tekið fyrir og samþykkt í bæjarstjórn í fyrradag og sérstaklega vísað í ákvæði sem varða afgreiðslu aðal- og deiliskipulagsins.

Öll gögn málsins, hvort sem varðar aðal- og deiliskipulagið lá fyrir fundinum líkt og þau skipti sem málið var tekið fyrir áður.

Að þessu virtu eru öll formskilyrði uppfyllt í málinu og bæði aðal- og deiliskipulag telst þar með samþykkt. Ég felst þó vissulega á það að bókun skipulags- og byggingarráðs hefði mátt vera skýrari en hún vísar samt sem áður málinu óbreyttu til bæjarstjórnar, þ.e. bæði aðal- og deiliskipulaginu.

Lesa má fundargerðina hér. (3. liður)

Horfa má á bæjarstjórnarfundinn hér (hefst við 16:37)

Uppfært kl. 14:27:

Lögfræðingur Skipulagsstofnunar tekur undir svar lögfræðings bæjarins og telur að ef bókunin er skoðuð með heildstæðum hætti sé hægt að álykt að bókunin taki bæði til aðalskipulagsbreytingar og dieliskipulags.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2