Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mótmælir harðlega fyrirhuguðum breytingum á lokun Garðahraunsvegar til austurs (gamla Álftanesveg) við Herjólfsbraut eins og fram kemur í auglýsingu um tillögu að breyttu deiliskipulagi Garðahrauns frá 7. sept sl. og Fjarðarfréttir greindi frá í frétt 7. september sl.
Í bókuninni segir að fyrirliggjandi tillaga, sem gerir ráð fyrir talsverðum breytingum á m.a. umferðartengingum, sé lögð fram án nokkurs samráðs né úttektar á umferðarmálum svæðisins.

„Nái tillagan fram að ganga mun umferð aukast stórlega í gegnum íbúðahverfi Norðurbæjar og hafa veruleg áhrif á heimilis- og starfsmenn Hrafnistu auk þess sem viðbragðstími sjúkra- og slökkviliðs lengist verulega inn á það svæði og nyrðri hluta Hafnarfjarðar.
Í fyrirliggjandi tillögu eru t.d. gerðar breytingar á umferðarmannvirkjum sem eiga sér ekki stoð í gildandi Aðalskipulagi Garðabæjar.“
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á bæjaryfirvöld í Garðabæ að falla frá fyrirhuguðum breytingum.