fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSkipulagsmálBjarg fær þróunarreit fyrir 150 íbúðir á ósamþykktu skipulagi við Hamranes

Bjarg fær þróunarreit fyrir 150 íbúðir á ósamþykktu skipulagi við Hamranes

Skiluðu lóð í Skarðshlíð vegna íþyngjandi skilmála og vilja byggja 152 íbúðir í Hamranesi

Íbúðafélagið Bjarg, sem ætlaði að byggja 42 íbúðir í Skarðshlíð en skilaði lóðunum vegna íþyngjandi skilmála fær nú þróunarreit fyrir 150 íbúðir á nýju byggingasvæði við Hamranes sem enn hefur ekki verið skipulagt og hvergi hafa verið birtar teikningar af fyrr en í erindi Bjargs. Vill Bjarg byggja 76 íbúðir á hvorri lóð eða samtals 152 íbúðir á bilinu 74 – 100 m² með 23 bílastæðum á hvorri lóð eða 0,3 bílastæði á íbúð en í hugmyndum Bjargs segir að einnig verði gert ráð fyrir bílastæðum í götu.

Ath. Í prentaðri útgáfu Fjarðarfrétta í dag segir að Bjarg hafi ætlað að byggja 150 íbúðir í Skarðshlíð. Það er ekki rétt, þar fékk Bjarg upphaflega heimild til að byggja 32 íbúðir sem síðar var fjölgað í 42. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

Skipulags- og byggingarráð samþykkti erindi Bjargs og vísaði því til bæjarráðs en skv. uppl. Inga Tómassonar for­manns ráðsins er fyrirhugað að vinna deiliskipulag hverf­is­ins með væntanlegum bygg­­­ingar­verktökum á svæð­inu.

„Okkur er það miklið ánægjuefni að verkefnið sé aftur komið á fullan skrið og með nýrri nálgun Hafnarfjarðarbæjar varðandi skipulagsvinnu á framgangur verkefnisins að vera tryggður,“ segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, íbúðafélags hses.

Í Hafnarfirði eru langir biðlistar eftir félagslegu húsnæði og einnig skortur á hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir almenning skv. eftirfarandi bókun fulltrúa S-lista:

„Fulltrúi Samfylkingarinnar fagnar því að Bjarg íbúðarfélag sæki um lóð undir íbúðir í Hafnarfirði eftir að hafa skilað lóð í Skarðshlíð fyrr á árinu vegna íþyngjandi skilmála sem féllu ekki innan kostnaðarmarkmiðs reglugerðar um almennar íbúðir. Í Hafnarfirði eru langir biðlistar eftir félagslegu húsnæði og skortur á hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir almenning. Það er því mikilvægt að vinna að því að úthluta Bjargi íbúðarfélagi lóð svo framkvæmdir geti hafist sem fyrst.“

Neitar að sýna hugmyndir að nýju hverfi

Fjarðarfréttir óskuðu eftir að fá að sjá þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram við uppbyggingu í Hamranesi en þær voru m.a. kynntar á fundi skipulags- og byggingarráðs 11. september sl. og voru tillögur Bjargs byggðar á þeim tillögum.

Skipulagsstjóri hafnaði þeirri beiðni á þeirri forsendu að þessar tillögur gætu breyst í áframhaldandi hönnun og jþví væri varla tímabært að birta þær. Þessari túlkun hafa Fjarðarfréttir andmælt enda aðilar úti í bæ þegar farnar að nota þær í vinnu sinni og áframhaldandi vinna er byggð á.

 

Samsett mynd sem ætti að sýna nokkurn veginn hvar þetta hverfi er.

Fundargerð skipulags- og byggingarráðs (sjá lið 6)

Skv. fundargerðinni má sjá bréf Bjargs hér en þetta er greinilega rangt skjal enda frá 4. desember 2017 þar sem hvergi er minnst á þetta svæði við Hamranes.

Rétt erindi Bjargs: (uppfært 25.10.2018)

„Varðar: Skil lóðar Hraunskarði 2

2016 gerðu Hafnarfjarðarbær og ASÍ viljayfirlýsingu um byggingu 150 hagkvæmra leiguíbúða með það markmið að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða leiguheimili að norrænni fyrirmynd.

Félaginu var á grundvelli viljayfirlýsingarinnar veitt vilyrði fyrir lóð undir 32 íbúðir í Skarðshlíð og 2017 gerði Bjarg lóðaleigusamning um lóðina Hraunskarð 2.

Að lokinni frumhönnun kom í ljós að kostnaður var töluvert hærri en leyfður hámarkskostnaður samkvæmt reglugerð um almennar íbúðir. Stofnframlags ÍLS og Hafnarfjarðarbæjar til verkefnisins var háð því skilyrði að kostnaður yrði innan þeirrar reglugerðar.

Hafist var handa við að finna leiðir til að lækka byggingarkostnað. Þær leiðir kölluðu á deiliskipulagsbreytinga og átti félagið marga fundi með skipulagsyfirvöldum vegna þessa.

Þrátt fyrir vilja beggja aðila og langar viðræður var að lokum tillögum Bjargs, um breytingar sem hefðu gert kleyft að byggja hagkvæmt húsnæði á lóðinni, hafnað af Hafnarfjarðarbæ.

Niðurstaða hönnunarvinnu er að óbreytt skipulag lóðarinnar styður ekki við markmið um hagkvæmni sem kveðið er á í lögum um almennar íbúðir og var skilyrði fyrir veitingu stofnframlags.

Bjarg íbúðafélag lýsir hér með yfir að miðað við óbreytta afstöðu Hafnarfjarðarbæjar skilar félagið hér með inn úthlutun lóðar að Hraunskarði 2, landnúmer 214363.

Samhliða óskar félagið eftir úthlutun lóðar vegna verkefnisins í nýjum áfanga í Skarðshlíð. Þá óskar félagið eftir að koma að undirbúning skipulags til að tryggja markmið verkefnisins um hagkvæmni náist.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2