Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur ákveðið að hefja heildarendurskoðun á skipulagi Setbergs, en hverfið skiptist í nokkur deiliskipulög sem mörg hver eru komin til ára sinna.
Tilgangur endurskoðunarinnar er sagður vera sá að huga að heildstæðu hverfisskipulagi, samantekt síðari deiliskipulagsbreytinga og meta hvernig megi bregðast við breyttum áherslum samtímans án þess að raska heildarsvipmóti hverfisins.
Byggja á áherslum í þéttingarskýrslu
Endurskoðun hverfisins mun m.a. byggja á þeim áherslum sem fram koma í þéttingarskýrslu Hafnarfjarðar frá janúar 2016 og unnin var af starfshópi sem var skipaður af skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar.
Fékk þessi skýrsla þó aldrei formlega umfjöllun eða afgreiðslu þó hluti úr henni hafi verið notaður við gerð nýs skipulags. Hana er ekki að finna á nýjum vef Hafnarfjarðar en skoða má skýrsluna hér.
Tilgangur starfshópsins var að meta þá möguleika sem kunna að vera til staðar í grónum hverfum bæjarins og á jöðrum byggðar, til þéttingar. Hvernig nýta megi betur núverandi húsnæði ásamt fyrirliggjandi innviðum svo að fjölga megi íbúum í Hafnarfirði næstu áratugina án þess að fara í stórfellda uppbyggingu innviða á borð við umfangsmikil umferðarmannvirki, vegaframkvæmdir og uppbyggingu skólahúsnæðis. Þessar áherslur eru sagðar í takt við stefnu svæðisskipulags Höfuðborgarsvæðisins 2040, sem Hafnarfjarðarkaupstaður er hluti af.
Vinna framangreinds starfshóps byggir á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025, svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins 2040 og tölfræðigögnum sem notuð voru við gerð svæðisskipulagsins ásamt fyrirliggjandi umferðarspám og umferðartalningum í Hafnarfirði.
Í skýrslunni eru m.a. hugmyndir um fjölgun íbúða í sérbýli en þar segir að mestu máli skipti þó samstarf við Garðabæ um uppbyggingu við austanvert Setberg. Er það hverfi þar sem golfvöllurinn er nú og þýddi að umferðartenging yrði við það svæði um Holtabergið.
Í þéttingarskýrslunni er m.a. að finna helstu áskoranir, stefnu um fjölbreytta uppbyggingarmöguleika innan þéttbýlismarka til næstu tuttugu og fimm ára, mismunandi sviðsmyndir sem sýna megináherslur í uppbyggingu auk tillagna að þéttingar- og þróunarsvæðum.
Þéttingarmöguleikar innan Setbergs eru sagðir felast m.a. í því að fjölga íbúðum í sérbýli og að rýmkaðar verði heimildir til að skipta sérbýlishúsum upp í fleiri íbúðir.
Við endurskoðun hverfisins á að skoða umfang slíkra heimilda. Jafnframt að meta umferð, bílastæði við hús og götur ásamt umferðaröryggi. Sagt er að huga þurfi að grænum svæðum hverfisins, nýtingu þeirra og fyrirkomulagi sem og stígakerfi.
Innan hverfisins eru óbyggðir reitir. Skoða þarf með hvaða hætti mætti byggja þar í framtíðinni og setja skilmála þar um svo tryggja megi að þau mannvirki sem kunna að rísa á þeim falli að aðliggjandi byggð og umhverfi.
Vinna við húsakönnun er hafin í samræmi við 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 2010/123. Fornleifaskráning fyrir hverfið hefur verið uppfærð í samræmi við lög um menningarminjar 80/2012.
Átta deiliskipulög í gildi með fjölmörgum breytingum
Innan Setbergshverfis eru átta deiliskipulög í gildi frá árunum 1983-1994, með síðari breytingum. Með heildarendurskoðun hverfisins skal tryggja að áherslur fyrri skipulaga hvað varðar byggðamynstur og yfirbragð verði áfram í nýrri greinargerð hverfisskipulagsins.
- Setberg, að norðuröxl Fjárhúsholts samþykkt 01.1983. Með síðari breytingum.
- Lyngberg 15, samþykkt 03.2015/ B-deild 09.04.2015
- Glitberg 5, samþykkt 06.2008
- Deiliskipulag Setbergs að norðuröxl Fjárhúsholts, Víðiberg 9, enginn uppdráttur aðgengilegur á vef Skipulagsstofnunar. Óveruleg breyting. Samþykkt 21.06.2006
- Skipulagsreitur 1. vegna Reykjanesbrautar, samþykkt 06.04.2004
- Tinnuberg 2-4, samþykkt 07.1996.
- Vörðuberg og Tinnuberg, samþykkt 19.10.1993.
- Lóðabreytingar við Hólsberg og Háberg, samþykkt 05.2006
- Norður-Öxl Fjárhúsholts, Setbergssvæði sunnan og austan Holtabergs, samþykkt 12.1989, með síðari breytingum.
- Setberg, Norður-Öxl, Háaberg 31, samþykkt 11.2002. Enginn uppdráttur aðgengilegur á vef Skipulagsstofnunar. Óveruleg breyting.
- Klukku- og Klettaberg efst í Fjárhúsholti, samþykkt 11. 1990, með síðari breytingum.
- Fjárhúsholt, Klettaberg 42-44, samþykkt 20.06.2005. Byggingareitur stækkaður til austurs um 4 m.
- Suður-öxl Fjárhúsholts, samþ. 12.1989, með síðari breytingum.
- Lindarberg 42, samþykkt 07.2006. Stækkun lóðar úr 700 m² í 818 m².
- Setberg íbúðarsvæði, áfangi, samþykkt 12.02.1988. með síðari breytingum.
- Lindarberg 12, samþykkt 05.2005, óveruleg breyting. Heimild veitt til að byggja undir svalir.
- Stekkjarhraun útivistarsvæði, samþykkt 09.1994.
- Deiliskipulag miðhverfis Setbergs, samþykkt 11.1991, með síðari breytingum.
- Stekkjarberg 9, samþykkt 10.2019, óveruleg breyting.
- Stekkjarberg 9, samþykkt 03.2016. Breytt notkun á landi.
- Stekkjarberg 9, samþykkt 11.2005. Veruleg breyting. Aukning á byggingarmagni.
- Deiliskipulag Setbergs, áfangi. Mosahlíð. Samþykkt 11.02.1992, með síðari breytingum.
- Afmörkun deiliskipulags, samþykkt 06.2017. Skipulagsmörk Mosahlíðar færast vegna deiliskipulags Kaldárselsvegar.
- Mosahlíð, Furugrund 23, samþykkt 03.2012. Óveruleg breyting, stækkun á byggingareit.
Skipulagsferli – kynning og samráð
Leitað verður umsagna eftirtalinna aðila vegna fyrirhugaðrar heildarendurskoðunar Setbergs: Byggðasafns Hafnarfjarðar, Náttúrustofnunar, Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, Veitna, Mílu eða annarra aðila sem sjá um uppsetningu mastra vegna farsíma, Strætó og Vegagerðarinnar.
Kynna á fyrir almenningi og hagsmunaaðilum eins og skipulagslög og skipulagsreglugerð kveða á um. Tímafrestur fyrir ábendingar og athugasemdir verður tilgreindur í auglýsingu og á vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar.
Þær umsagnir og athugasemdir sem kunna að berast á þeim tíma sem greinargerð þessi er auglýst og kynnt, verða teknar til frekari skoðunar og úrvinnslu við áframhaldandi vinnu við endurskoðun hverfisskipulags Setbergs.
Málið er á dagskrá bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag sem tekur ákvörðun um endurskoðunina sem Urban arkitektar hefur unnið fyrir Hafnarfjarðarkaupstað.
Skipulagslýsinguna má sjá hér.