Á þriggja manna afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 31. október sl. var samþykkt heimild fyrir að steypt yrði gámastæði og reist girðing að Fornubúðum 5, en þar stendur styr um byggingu 5 hæða, tæplega 21 m hás húss, sem að hluta á að nota undir höfuðstöðvar Hafrannsóknarstofnunar.
Það sem gerir þessa samþykkt sérstaka er að deiliskipulagið sem heimilaði bygginguna var fellt úr gildi og þar með byggingarleyfið sjálft.
Kynningarfundur í dag kl. 17
Gera þarf aðalskipulagsbreytingu sem er í auglýsingu en breyting á deiliskipulagi lóðarinnar verður kynnt á opnum fundi sem haldinn verður í dag, fimmtudag, kl. 17 að Norðurhellu 2.
Stærðin á gámastæðinu, undirstöður og hæð eru alveg í samræmi við þær teikningar sem höfðu verið samþykktar að húsnæði Hafrannsóknarstofnunar sem er um þriðjungur af því byggingarmagni sem leyfa átti.
Með þessu gátu menn því byggt sökkla og plötu fyrir byggingu sem engin heimild er til að byggja. „Þetta er snilld að láta sér detta þetta í hug,“ segir einn ónefndur embættismaður hjá Hafnarfjarðarbæ.
Skilafrestur athugasemda til 4. desember
Breyting á aðalskipulagi sem felst í að landnotkun er breytt og tillaga að breyttu deiliskipulagi Suðurhafnar í samræmi við breytingu á aðalskipulagi sem í raun er gerð til að leyfa þessa viðbyggingu við Fornubúðir 5, m.a. undur starfsemi Hafrannsóknarstofnunar, hefur verið auglýst og er athugasemdur til 4. desember nk. Þetta má sjá í auglýsingu sem ekki hefur verið birt í bæjarblaði í Hafnarfirði og það vekur athygli að deiliskipulagsbreytingarinnar er ekki getið í kaflanum „Skipulag í kynningu“ á heimasíðu bæjarins.
Þá er fundurinn í dag heldur ekki auglýstur í bæjarblaði í Hafnarfirði