Nesnúpur eigandi húsanna að Suðurgötu 44, þar sem áður hýsti leikskóla kaþólsku nunnanna og kallaðist í daglegu tali Kató, hefur óskað eftir að fá að rífa húsin og reisa þar 15 íbúða íbúðabyggð, alls 1.500 m². Á byggðin að mynda klasa af stökum og meira samsettum byggingum.
Húsin, gamla húsnæði Kató og íþróttahúsið, átti skv. deiliskipulagi að verða breytt í íbúðarhúsnæði en Hafnarfjarðarbær lét gera úttekt á húsunum og í ljósi hennar var ákveðið að nýta húsin áfram og breyta þeim í íbúðir. Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 12-15 misstórum íbúðum í núverandi húsum.
Nesnúpur sem keypti húsin telja þau hins vegar í miklu verra ástandi og ekki borgi sig að breyta þeim í íbúðir og leggja því fram drög að breyttu deiliskipulagi.
Byggingarnar sem Nesnúpur vill byggja, eru staðsettar nær götu en núverandi bygging og í tillögum ASK arkitekta til bæjaryfirvalda segir að þær taki upp smágert byggðarmynstur í umhverfinu en „tali líka við stóru bygginguna þ.e. St Jósefsspítla“.
Leitast sé við að gera götumyndina þéttari og heillegri en hún er í dag. Með litavali sé leitast við að fá sterka heild sem þó falli vel inn í umhverfið.
„Góðir stígar liggja í gegn um byggðaklasann og tengjast skjólgóðu leiksvæði í suðurgarði.
Megin byggingarmassinn heldur sér innan marka gömlu byggingar annarsvegar og á fyrirhuguðum bílastæðum hinsvegar. Í kjallara eru stæði fyrir 15 bíla ásamt geymslum, hjól-. vagna- og sorpgeymslum. Innkeyrsla er höfð nálægt Suðurgötu svo umferð fari ekki langt inn í fíngert hverfið (Hamarsbraut).“
Íbúðir eru ýmist á einni eða tveimur hæðum.
Málið var kynnt á síðasta fundi skipulags- og byggingarráðs en það fellur í hlut nýs ráðs eftir kosningar að afgreiða málið.