Íslenska ríkið stofnaði þjóðlendu sem færð var undir staðarmörk Hafnarfjarðar
Undir staðarmörk Hafnarfjarðar hafa nú bæst tvö misstór landsvæði sem óbyggðanefnd úrskurðaði sem þjóðlendu 2006 og Hæstiréttur staðfesti 2009. Árið 2014 úrskurðaði óbyggðanefnd að landsvæðið væri innan staðarmarka Hafnarfjarðar og staðfesti Hæstiréttur það með dómi 16. nóvember 2017.
Annað svæðið er skógræktarsvæði og afmarkast við Markrakagil í Undirhlíðum, skammt austan Vatnsskarðsnámunnar, að Hæstaholti í Dauðadölum sem hafa verið landamerki Hafnarfjarðar og Grindavíkur og að punkti rétt sunnan Bláfjallavegar þar sem hann liggur syðst. Alls er þetta svæði 4,1 km².
Hitt svæðið er 26 km² og afmarkast af áðurnefndum punkti við Bláfjallaveg, að landamerki á Húsfelli í norðri og þaðan í Þríhnjúka og áfram að Bláfjallahorni og þaðan í vestur að Stóra-Kóngsfelli og þaðan í punkt í N-A þar sem landamerki Grindavíkur mætast. Þaðan liggja mörkin að punktinum við Bláfjallaveg. Þetta svæði var áður afréttur Álftaneshrepps hins forna.
Til gamans má geta að hluti af gönguskíðasvæðinu í Bláfjöllum verður innan marka Hafnarfjarðar ásamt hluta af Strompunum en mörkin liggja við Bláfjallahorn.
Ruglingur í skipulags- og byggingarráði
Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar hefur orðið við beiðni forsætisráðuneytisins um stofnun fasteignar (þjóðlendu) og leggur til við bæjarstjórn að hún feli umhverfis- og skipulagsþjónustu að annast stofnun þjóðlendu en skilgreinir aðeins minna svæðið og svo virðist sem handvömm hafi orðið í afgreiðslu ráðsins eða fundarritun því erindi ráðuneytisins voru tvö, eitt um hvort svæði en þjóðlendan er ein.
Eftir fyrirspurn Fjarðarfrétta um málið virðist formaður skipulags- og byggingarráðs hafa óskað eftir því við bæjarstjórn að málið fari aftur fyrir ráðið og bar við að ekki hafi verið rétt gögn undir málinu. Ekki var það skýrt nánar á bæjarstjórnarfundi í dag.
Misræmi í landamerkjum
Það vekur athygli að landamerkin við Bláfjallahorn eru ekki á sama stað og fyrri landamerki Garðabæjar, Kópavogs og Sveitarfélagsins Ölfuss og munar þar 485 m sem er nálægt því að vera skekkjumörkin sem gefin eru upp á hnitunum á landspildublaði en texti er sagður ráða umfram hnit. Þjóðlendan markast af Markrakagili í vestri, þaðan í Hæstaholt í Dauðadölum, þaðan í Húsfell sem er nyrsti punkturinn, þaðan í Þríhnjúka og áfram í Bláfjallahorn sem er austasti punkturinn og svo í vestur í Litla-Kóngsfell og þaðan í norð-austur í átt að Stóra-Kóngsfeli þar til norðurmörk Krýsuvíkur sker línuna. Þaðan með örlítilli hliðrun aftur í Markrakagil.
Punkturinn sem gefinn er upp á landspildublaði forsætisráðuneytinu fyrir Bláfjallahorn mun ekki vera réttur heldur ráði eldri mörk þar sem markasteinn er. Mörkin ættu því að vera rétt þar sem rauðu strikalínurnar skarast í s-a horni kortsins.
Landamerkjavarða er þarna, hátt í 500 m frá því hniti sem gefið er upp fyrir Bláfjallahorn.
Þarna munar um einum ferkílómetra á stærð svæðisins eftir því hvor punkturinn er notaður.