fbpx
Miðvikudagur, janúar 8, 2025
HeimFréttirÍbúar öskureiðir en Ingi Tómasson segir aldrei hafa verið eins víðtækt samráð

Íbúar öskureiðir en Ingi Tómasson segir aldrei hafa verið eins víðtækt samráð

Engin sérstök kynning hefur verið á því að mögulega þurfi að fjarlægja hús við Reykjavíkurveginn

Íbúar við Reykjavíkurveg eru öskureiðir yfir því að frétta af tilviljun að verið sé að veita heimild í deiliskipulagi til að hús þeirra verði rifið eða fjarlægt.

Ekki hafi verið haft samband við neinn húseigenda vegna þess og samráð hafi ekkert verið. Þetta mál hafi ekki verið kynnt sérstaklega og saka þeir bæjaryfirvöld um samráðsleysi.

Segir aldrei hafa verið eins víðtækt samráð og býst við að brugðist verði við athugasemdum með jákvæðum hætti

Ólafur Ingi Tómasson, (D) formaður skipulags- og byggingarráðs fullyrðir hins vegar í viðtali á Vísi að aldrei hafi veið eins víðtækt samráð haft. „Ég er alls ekki sammála því. Ég er nú búinn að vera ansi lengi í þessum skipulagsmálum hér í Hafnarfirði og ég held að það hafi aldrei verið eins víðtækt samráð haft.“

Ólafur Ingi Tómasson (D) formaður skipulags- og byggingarráðs

„Mistök áttu sér stað“

Segir hann í Facebook færslu að mistök hafa átt sér stað í ferli skipulagsins, „og af þeim sökum framlengdum við athugasemdafrestinn og ég sé að það er verið að bregðast við með því að senda inn athugasemdir. Ég á ekki von á öðru en að brugðist verði við með jákvæðum hætti við athugasemdum ykkar eins og reyndar var gert vegna flestra athugasemda sem komu á vinnslustiginu.“

Komi ekki til greina að rífa húsin

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri segist í samtali við mbl.is vilja líta á málið sem einn stór­an mis­skiln­ing og bæt­ir við að hún og full­trú­ar meiri­hlut­ans telji það alls ekki koma til greina að rífa um­rædd hús. Það hafi frá upp­hafi verið skýr stefna þeirra.

Rósa Guðbjartsdóttir (D) bæjarstjóri

Virðast bæjarfulltrúarnir því ekki ganga í takt í þessu máli og í raun viðurkennir bæjarstjóri að ekki hafi verið vandað nægilega til verka og kennir í raun arkitektum um.

Í viðtalinu við bæjarstjóra segir m.a. á mbl.is

Varðandi borg­ar­lín­una seg­ir hún að verk­fræðing­ar hafi lagt til að hún færi í gegn­um Reykja­vík­ur­veg í sam­göngusátt­mála. Það hafi verið skýr stefna henn­ar að á um­rædd­um kafla á veg­in­um færi borg­ar­lín­an í gegn­um al­menna um­ferð, eins og gert er ráð fyr­ir í sátt­mál­an­um að sum staðar sé hægt að gera. Höf­und­um skipu­lags­ins vegna vest­ur­bæj­ar Hafn­ar­fjarðar, þ.e. arki­tekt­um, hafi aft­ur á móti fund­ist að ávarpa þyrfti þann mögu­leika í grein­ar­gerð um vernd­ar­svæðið að rífa hús­in ef bæj­ar­yf­ir­völd­um framtíðar­inn­ar sner­ist hug­ur og fór til­lag­an þannig í aug­lýs­ingu.

„Við skul­um bara viður­kenna að það voru mis­tök að láta þetta orðalag standa að heim­ilt væri að fjar­lægja til­tek­in hús,“ seg­ir Rósa um að þessi mögu­leiki hafi verið nefnd­ur í grein­ar­gerðinni og seg­ir að hús­in verði ekki rif­in á þeirra vakt. „Ég er til í að þetta verði tekið út ef þetta er að valda svona mikl­um mis­skiln­ingi,“ bæt­ir hún við.

Bæjarstjórn samþykkti að senda málið svona í auglýsingu og ætla má að það hafi verið fullbúið frá þeirra hendi og getur bæjarstjórn því ekki vikið sér frá ábyrgð í þessu máli.

Er þörf á meira rými við Reykjavíkurveg?

Hvergi er að finna ákvörðun um að Borgarlínan fari um Reykjavíkurveg þó allt bendi til þess að það sé lang besti kosturinn. Hafnfirðingar sitja aftast í vagninum og ekki er gert ráð fyrir að hluti Borgarlínunnar, Kringlan – Fjörður verði tekinn í gagnið fyrr en árið 2030. Það er þrátt fyrir að leið 1 hjá Strætó sem fer þessa leið, og reyndar út á Velli, sé arðbærasta strætóleiðin á landinu.

Í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir Reykjavíkurveginum sem einni af hjólreiðastofnleiðum svæðisins og undir það þarf rými.

Í skýrslu sem verkfræðistofan Mannvit gerði 2017 og kynnt var m.a. á íbúafundi í janúar 2018 var Reykjavíkurvegurinn sýndur sem möguleg leið fyrir Borgarlínuna og þá gert ráð fyrir að aðeins þurfi að fjarlægja bílastæði við Reykjavíkurveginn en að Borgarlínan fengi aðeins eina akrein á 260 m kafla frá Skúlaskeiði að Arnarhrauni.

Ekkert hefur verið ákveðið hvernig Borgarlínan verður á Reykjavíkurvegi, verði hún þar svo vart er tímabært að veita heimildir fyrir að fjarlægja hús strax. Verði Borgarlínan lögð eftir Reykjavíkurvegi þarf að skoða Reykjavíkurveginn í heild sinni og byggðina báðum megin við skv. upplýsingum skipulagsstjóra Hafnarfjarðar.

Ákvæði í greinargerð með deiliskipulagstillögunni

Leiðarnet Borgarlínunnar eins og það er áætlað í dag. Ekki er þó gert ráð fyrir að fyrsta leiðin í Fjörð verði tilbúin fyrr en árið 2030.

Á bls. 50 í greinargerð og skipulagsskilmálum um deiliskipulag Vesturbæjar Hafnarfjarðar segir um Reykjavíkurveginn:

„Skv. upplýsingum á heimasíðu Borgarlínunnar er áætlað að árið 2030 muni Borgarlínan aka um Reykjavíkurveg sömu leið og strætó ekur nú.

Reykjavíkurvegur er skv. svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins skilgreind stofnleið hjólreiða og í viðauka B um stofnleiðanet 2020-2033 kemur fram að árið 2033 verði búið að koma upp aðskildum hjólastígum meðfram götunni.

Til þess að hvort tveggja geti orðið að veruleika þarf að gera umtalsverðar breytingar á Reykjavíkurvegi sem er á köflum þröngur.

Vert er að nefna að hljóðstig við Reykjavíkurveg er mjög hátt, sjá kafla 3.9 um hljóðvist. Af þessum sökum eru skipulagsmörk dregin í eða við lóðarbrún lóða við Reykjavíkurveg en mörk verndarsvæðis í byggð eru dregin inn (austar) sem svarar einni húsaröð.

Tillaga að deiliskipulagi veitir engar nýjar heimildir til uppbyggingar við Reykjavíkurveg en gefnar eru heimildir til þess að flytja hús eða fjarlægja ef til þess kæmi að endurhanna þyrfti aðkomuna til Hafnarfjarðar í gegnum Reykjavíkurveg.“

Skortur á upplýsingum

Fjölmargir kynningarfundir hafa verið haldnir um deiliskipulagstillöguna um Vesturbæ Hafnarfjarðar og virðist almennt vera sátt um að vel hafi verið að henni staði og skýringargögn góð, og á það líka við um verndarsvæði í byggð.

Hins vegar virðist það alveg hafa farið fram hjá íbúum (og reyndar bæjarfulltrúum sem formlega lögðu tillöguna til) að verið væri að gefa möguleika á því að húsaröðin við Reykjavíkurveg yrði fjarlægð.

Á kynningarfundum um Borgarlínuna hefur það hvergi komið fram og eðlilegt hefði verið að þetta væri kynnt sérstaklega og ekki síst nú þegar fólk er rétt að átta sig á því hvaða áhrif þetta getur haft og líka í ljósi þess að þetta virðist jafnvel koma bæjarstjóra á óvart.

Bæjarfulltrúi sem Fjarðarfréttir ræddi við sagði að á kynningu á deilskipulagstillögunni fyrir bæjarstjórn hafi ekki verið talað um að grfa möguleika á að fjarlægja hús við Reykjavíkurveg.

Því væri eðlilegt að haldinn yrði almennur kynningarfundur um mögulega legu Borgarlínu um Reykjavíkurveg og hvað það getur haft í för með sér. Einnig væri hægt að svara þeirri spurningu hvort tímabært sé að veita þessa heimild í deiliskipulagi, nú þegar ekki er vitað hvað Borgarlínan og mögulega hjólastígar þurfa mikið rými.

Hafnarfjarðarbær hefur ekki verið iðinn við að kynna áform í skipulagsmálum, t.d. með því að senda á fjölmiðla eins og Fjarðarfréttir upplýsingar og tillögur. T.d. hefur sú ákvörðun um að framlengja umsagnarfrestinn hvergi verið kynnt og leita þarf djúpt á vefsíðu bæjarins til að finna að búið er að breyta dagsetningu á umsagnarfrestinum.

Upplýsingar um deiliskipulagstillöguna má finna á hafnarfjordur.is undir Íbúar og finna þar Skipulag í kynningu undir Skipulag. Þar má finna deiliskipulagsbreytinguna Vesturbær með dagsetningunum 19.10.2021 – 9.12.2021. Þegar smellt er á deiliskipulagið má finna 3 greinargerðir, húsakönnun og skilmálatöflu, 5 deiliskipulagsuppdrætti og 29 skilmálablöð svo nóg er að lesa.

Athugasemdafrestur til 9. desember

Þar er reyndar tekið fram að ákveðið hafi verið á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar þriðjudaginn 30. nóvember að framlengja athugasemdafresti til 9. desember 2021. Það er hins vegar ekki í samræmi við fundargerð sem finna má hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2