Í nýrri skýrslu Vegagerðarinnar um sýn hennar á vegi á höfðuborgarsvæðinu til 2040 er m.a. fjallað um Ofanbyggðarveg milli Hafnarfjarðar og Kópavogs en vonir Hafnfirðinga um að af slíkum vegi yrði hafa dvínað mjög á undanförnum árum. Birtist það m.a. í því að lega nýrrar Ásvallabrautar er sett í vegstæði sem ætlað var fyrir Ofanbyggðarveginn við Kaldárselsveg.
Í skýrslunni seigir að lega Ofanbyggðarvegar sé skýr í aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Í nýju aðalskipulagi Garðabæjar sé Álftanesvegur sýndur sem stofnvegur frá Ofanbyggðarvegi í Hafnarfirði að Hafnarfjarðarvegi í Engidal með mislægum vegamótum við Reykjanesbraut. Ofanbyggðarvegur sé hins vegar felldur út frá Álftanesvegi að Arnarnesvegi. Í umsögn Vegagerðarinnar um aðalskipulag Garðabæjar segir m.a.:
„Eins og kemur fram í greinargerð með aðalskipulaginu þá stendur yfir vinna hjá SSH og Vegagerðinni við að greina framtíðarsýn fyrir stofnvegakerfið á höfuðborgarsvæðinu. Í þeirri vinnu verður Ofanbyggðarvegur væntanlega skilgreindur og fjallað um mikilvægi hans fyrir stofnvegakerfi höfuðborgarsvæðisins.“
Eina leiðin
Í skýrslunni segir að Ofanbyggðarvegur frá Kópavogi til Hafnarfjarðar sé eina leiðin sem hugsanlega gæti létt umferð af Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi. Við að falla frá hugmyndum um Ofanbyggðarveg um Garðabæ verði öll umferð til framtíðar um núverandi vegi og þar með aukist enn mikilvægi þess að halda þjónustustigi á þeim háu. Minnt er á eftirfarandi grein úr Vegalögum:
„Til stofnvega teljast einnig umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.“
Miðað við aðalskipulag Garðabæjar mun Ofanbyggðarvegur þannig vart teljast til þjóðvega. Vegagerðin telur æskilegt að halda fyrri áætlun um Ofanbyggð.
Á aðalskipulagi Garðabæjar og Hafnarfjarðar er Álftanesvegur á milli Ofanbyggðarvegar og Hafnarfjarðarvegar í Garðabæ sýndur sem stofnvegur. Þessa vegar sé ekki getið í svæðisskipulagi.
Í skýrslunni segir einnig að sveitarfélög skulu tryggja að við vegamót stofnvega við vegi í umsjá þeirra myndist ekki tafir sem hafi áhrif á afköst stofnvega.
Lögð er áhersla á að tryggja greiðar tengingar höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar við alþjóðlegar megingáttir, Reykjavíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll. Reykjavíkurflugvöllur er ekki nefndur en Vegagerðin telur brýnt að tryggja greiðar samgöngur að flugvellinum.
Hvert verður framhaldið
Forvitnilegt verður að fyljast með framhaldinu, hvort sveitarfélögin komi sér saman um Ofanbyggðarveg en reiknað hefur veið með því í skipulagi Hafnarfjarðarbæjar að hann komi í göngum í gegnum Vatnshlíðina en óvíst hefur verið með framhaldið í gegnum Garðabæ.