Skv. aðalskipulagi Hafnarfjarðar er stefnt að næstu íbúðabyggð sunnan við Ásvallabrautina á móts við nýtt hverfi Ásland 4.
Þetta eru svæði sem merkt eru ÍB 11 og ÍB 12 en það eru svæði sem eru fjólublá á meðfylgjandi mynd en auk þess er gert ráð fyrir svæði undir verslun og þjónustu, gult svæði og samfélagsþjónustu, brúnt svæði.
Þarna er þekkt misgengi sem m.a. var birt á korti Jóns Jónssonar jarðfræðings upp úr 1960.
Þarna er m.a. misgengi sem nefnist Bláberjahryggur og sagt er að hryggurinn hafi verið blár af berjum á haustin. Sagt er frá honum í Ratleik Hafnarfjarðar 2008 og 2011 þar sem segir: „Bláberjahryggur er misgengisprunga sem liggur um Bleiksteinsháls milli Kaldárselsvegar og Hamraness. Norðvestur barmurinn er hærri og misgengið er mest um 3-4 metrar. Jarðskorpan hefur rifnað í sundur áður en Búrfellshraun rann og sést misgengið greinilega norðaustan Gráhelluhrauns þar sem það markar skilin milli Flóðahjalla og Setbergshlíðar.“
Ítarlega er fjallað um sprungur á höfuðborgarsvæðinu í vísindagrein sem birt var í Verktækni árið 2018, „Bergsprungur og byggingar á höfuðborgarsvæðinu“ eftir dr. Pál Einarsson prófessor, dr. Hauk Jóhannesson og dr. Ástu Rut Hjartardóttur.
Þar segir m.a.:
„Stundum örlar á þeirri hugmynd að sprunga sem ekki hefur hreyfst í langan tíma (þúsund – 10 þúsund ár) sé „óvirk“ eða ólíkleg til að hreyfast frekar. Þetta getur verið réttlætanleg röksemdafærsla þar sem færslur eiga sér stað á einföldum sprungukerfum. Þetta á ekki við á Íslandi. Vegna þess hve hreyfingin deilist á margar sprungur þá getur tími milli atburða á hverri þeirra verið mjög langur. Sprunga sem ekki hefur haggast í 10 þúsund ár getur einmitt verið sprungan sem hreyfist næst.
Í umræðunni hefur stundum komið fram sú skoðun að sprungusvæði séu ónothæf til bygginga, jafnvel til hvers konar nota. Þetta er að okkar mati fjarri lagi. Sprungusvæðin á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess eru flest hlutar af sprungusveimum eldstöðvarkerfanna á Reykjanesskaga. Þessi sprungukerfi eru virk fyrst og fremst í tengslum við kvikuvirkni kerfanna. Miklar færslur á sprungum eru líklegastar þegar gangainnskot verða innan sveimsins. Þeim fylgja skjálftar en þeir verða sjaldan stórir. Hættan sem stafar af sprungunum er því fyrst og fremst vegna sprunguhreyfinga, ekki vegna titrings frá skjálftum. Byggingar og mannvirki innan sprungusveimanna ættu því ekki að verða fyrir meira tjóni en gengur og gerist nema þau standi á sprungunum og séu tengd berggrunninum báðum megin. Við teljum skynsamlegt ákvæðið í reglugerð að „óheimilt sé að byggja á þekktum jarðsprungum, misgengi eða nálægt hverum“. Sprungurnar og næsta nágrenni þeirra má hins vegar nýta til annarra hluta, sem útivistarsvæði, fyrir lagnastokka, gangstíga, bílastæði, akbrautir o.s.frv.“
Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt og endurskoðun á aðalskipulaginu er í gangi en núverandi aðalskipulag gildir til 2025.
Greinina „Bergsprungur og byggingar á höfuðborgarsvæðinu“ má lesa í heild hér.
Uppfært 21.11.2023:
Verður skoðað vandlega
Í samtali við Fjarðarfréttir sagði Lilja Grétarsdóttir, skipulagsfulltrúi hjá Hafnarfjarðarbæ, að þetta yrði skoðað vandlega þegar undirbúa á byggð á þessu svæði. Aðspurð sagði hún að miðað við aðalskipulagið hafi líklega ekki verið tekið til þessa sprungusvæðis við gerð aðalskipulagsins á sínum tíma.