fbpx
Fimmtudagur, janúar 9, 2025
target="_blank"
HeimFréttirVilja þróa þéttingareit við Reykjavíkurveg

Vilja þróa þéttingareit við Reykjavíkurveg

Munu bensínstöðvar og dekkjaverkstæði víkja fyrir íbúðum?

Nordic Office of Architecture f.h. lóðarhafa Reykjavíkurvegar 54-58 hefur sent inn ósk um á fá að hefja vinnu við gerð nýs deiliskipulags fyrir lóðirnar þar sem nú eru bensínstöðvar og fl.

Í umsókninni segir að markmið nýs deiliskipulags sé að þróa nýjan þéttingareit sem leggi áherslu á blandaða byggð, lifandi jarðhæð að Reykjavíkurvegi og góða tengingu við fyrirhugaða borgarlínu.

Afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa 13. september sl. gat ekki tekið afstöðu til fyrirspurnarinnar að svo stöddu og vísaði í umsögn sem ekki var þó birt með fundargerðinni.

Vel unnin tillaga og áhugaverð

Í umsögninni sem skipulagsfulltrúi afhenti Fjarðarfréttum segir að framlögð tillaga þyki vel unnin og áhugaverð en tekið fram að lóðirnar séu hluti af stóru þróunar- og umbreytingasvæði miðsvæðis í Hafnarfirði.

„Þar sem um stórt svæði er að ræða og huga þarf að fjölmörgu m.a. tengt samhengi innan svæðis og utan, gæðum byggðar, tengingum og innviðum er mikilvægt að skoða svæðið í heild sinni áður en unnið er með uppbyggingarheimildir reita eða lóða, enda eru heimildir í m.a. aðalskipulagi forsenda þess að hægt sé að gera það“.

Samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er lóðin á svæði fyrir verslun- og þjónustu en ekki er í gildi deiliskipulag fyrir hana.

Skýringarmynd úr umsókn lóðarhafa.

Ekki sé tímabært að taka afstöðu til tillögunnar

Í ljósi ofangreindrar umsagnar, afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs dags 15.6.23 og því að ljúka eigi vinnu við heildarsýn/heildarstefnumörkun á svæðinu öllu við gerð rammaskipulags og breytingar á aðalskipulagi segir í niðurstöðu umsagnar skipulagsfulltrúa að ekki sé tímabært að taka afstöðu til tillögu að uppbyggingu að Reykjavíkurvegi 54-58.

Eðli málsins samkvæmt muni þessi vinna taka töluverðan tíma, aðilum er bent á að fylgjast með þeirri vinnu. Segr jafnframt að stefnt sé að kynningum og samráði á vinnslutímanum.

Hraun vestur

Mál svæðisins alls, Hraun vestur, á sér töluverða forsögu og segir í umsögn skipulagsfulltrúa að vilji sé til þess að klára að ná utan um stóru myndina, aðal- og rammaskipulag áður en samþykkt verður deiliskipulag eða uppbyggingarheimildir fyrir einstaka reiti

Skipulags- og byggingarráð samþykkti 9. febrúar 2023 (ekki 2022 eins og stendur í fundargerð 15.6.2023) að unnið yrði áfram að breyttu aðalskipulagi reitsins sem tæki mið af sjónarmiðum Skipulagsstofnunar sem fram koma í umsögn dags. 19.12.2022 við skipulagslýsingu breytingarinnar.

Skipulagshöfundar mættu til fundar skipulags- og byggingarráðs 15. júní sl. og kynntu stöðu verkefnisins. Stöðuyfirlit þeirra var lagt fram með tillögum að næstu skrefum:

  1. Fara yfir tillögu að rammaskipulagi og uppfæra það m.t.t. þeirra breytinga sem gætu hafa orðið á þeim tíma sem liðinn er síðan unnið var í því, þ.e.a.s. fullvinna tillöguna.
  2. Rammaskipulagið fullunnið og samþykkt verður þannig góður grunnur að rammahluta aðalskipulags og/eða breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar, þar sem komið er til móts við sjónarmið Skipulagsstofnunar um framsetningu og vandað eins og kostur er til verka þannig að hagsmunaaðilar fái skýra sýn á stefnu bæjarstjórnar um svæðið til framtíðar.
  3. Endurskoða lýsingu fyrir aðalskipulagsbreytingu.
  4. Vinna tillögu að breytingu á aðalskipulagi.

    Samþykkti skipulags- og byggingarráð að unnið yrði áfram að verkefninu í samræmi við stöðuyfirlitið. skipulagshöfunda.

Hvar er Hraun vestur?

Hraun vestur afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatahrauni. Landnotkun og uppbygging reitsins tekur mið af verslun, þjónustu og íbúðarsvæði.

Skýringarmynd úr upphaflega rammaskipulaginu.

Sjö hverfi

Reiturinn skiptist í sjö hverfi. Rammaskipulag fyrir reitinn var samþykkt 15. ágúst 2018 en fyrir klaufaskap var það aldrei formlega samþykkt í bæjarstjórn og því hefur það ekkert gildi. Deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir fyrsta hverfið; Gjótur (490 íbúðir) en það var ekki í samræmi við rammaskipulagið sem samþykkt hafði verið af skipulags- og byggingarráði. Lóðirnar Reykjavíkurvegur 56-58 eru nyrst í hverfi 1, Gjótur.

Í kynningu á síðu bæjarins segir að gert sé ráð fyrir að hverfin byggist upp í áföngum á 15–20 árum og að tillögur að deiliskipulagi fyrir fleiri hverfi séu í vinnslu.

Rammaskipulag

Hlutverk rammaskipulags er að gefa leiðbeinandi heildarsýn um þróun skipulagssvæðisins en hefur ekki lögformlegt gildi. Í kjölfar verða afmarkaðir áfangar deiliskipulagðir. Þá eru endanlegar útfærslur, landnýting og byggingarmagn lögformlega ákvarðaðar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2