fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSkólamálÁrangur hafnfirskra nemenda eykst skv. PISA könnun

Árangur hafnfirskra nemenda eykst skv. PISA könnun

Árangurinn þó enn undir meðaltali á landinu og PISA

Hafnfirskir nemendur náðu betri árangri í PISA 2015 miðað við PISA 2012 á meðan árangri Íslands hrakar í heild sinni sem er áhyggjuefni að sögn Fanneyjar Dórótheu Halldórsdóttur fræðslustjóra í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður er meðal fárra sveitarfélaga þar sem það gerist að árangur batnar þótt enn sé árangurinn undir meðaltali landsins og PISA. Það er einnig óvenjulegt núna að niðurstöður fyrir Hafnarfjörð eru öfugt miðað við landið, þ.e. að árangri Íslands hrakar milli PISA kannana 2012 til 2015 en árangur nemenda Hafnarfjarðar batnar. Áður hafa niðurstöður fyrir Ísland og Hafnarfjörð alltaf farið saman, þ.e. lækkað (2003, 2006, 2012) eða hækkað (2009) bæði á sama tíma. Niðurstöðurnar í PISA 2015 benda því til að hafnfirskir nemendur séu að bæta sig miðað við landið í heild sinni og framtíðin mun leiða í ljós hvort þessi þróun mun halda áfram.

PISA umræðan

PISA umræða er margræð á Íslandi og skiptar skoðanir um mikilvægi PISA. Þannig er umræða um það hvort versnandi árangur Íslands endurspegli endilega getu íslenskra nemenda í heild sinni eða árangur íslenska skólakerfisins þar sem PISA sé að mæla mjög afmarkaða þætti skólastarfsins. Það séu svo margir þættir sem geti skýrt niðurstöður aðrar en endilega að versnandi árangur í sjálfu sér, t.d. félagslegar aðstæður nemenda, dagsform nemenda þegar PISA könnun var tekin, brottfall í PISA könnun, íslensk skólastefna um skóla án aðgreiningar þ.e að meðalmennska íslensks skólakerfis hamli góðum árangri duglegustu nemanda eða einfaldlega mismunandi áherslur í námi nemenda eftir sveitarfélögum og löndum sem mæti misvel „PISA námskránni“. Allt eru þetta þættir sem þarf að ræða og halda áfram umræðu um það hvaða máli PISA kannanir skipta fyrir íslenskt skólakerfi.

Mikilvægi lestrar ítrekaður í Hafnarfirði

Í Hafnarfirði hefur verið lögð aukin áhersla á mikilvægi lestrar síðustu ár, ekki sérstaklega vegna PISA heldur vegna þess að ýmsar vísbendingar gáfu til kynna að árangur hafnfirskra barna gæti verið betri og tilefni væri að leggja sérstaka áherslu á lestur yfirleitt í hafnfirskum leik- og grunnskólum. Þannig hefur verið innleidd í Hafnarfirði sérstök læsisáhersla sem nefnd er LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR sem hefur það að markmiði að styðja við skólastarfið, þ.e. gefa skólasamfélaginu skýr viðmið um lestrarhæfni nemenda eftir aldri, veita nemendum reglulega upplýsingar og endurgjöf um lestrargetu sína og styðja þá til að ná auknum árangri, styðja við kennara í lestrarkennslunni með margvíslegri fræðslu og ráðgjöf og hvetja foreldra til aukinnar þátttöku í heimalestri barna sinna.

„Við væntum að aukin umræða um læsi í hafnfirsku skólasamfélagi og innleiðing lestraráherslunnar LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR séu að færa hafnfirskum nemendum aukin gæði í skólastarfinu sem muni sýna sig enn frekar á næstu árum. PISA niðurstöðurnar eru jákvæðar fréttir í þá vinnu sem á sér stað í Hafnarfirði þessi misserin og gefa tilefni til að halda áfram að vinna að auknum námsárangri nemenda í læsi í Hafnarfirði,“ segir Fanney Dóróthe sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu í Hafnarfirði í tilkynningu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2