Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frestaði á mánudag afgreiðslu umsóknar Framsýnar skólafélags ehf. um starfsleyfi fyrir rekstur grunnskóla að Flatahrauni 3.
Í umsögn byggingarfulltrúa segir að samkvæmt samþykktum teikningum uppfylli húsnæðið ekki kröfur um skólahúsnæði samkvæmt reglugerð.
Með vísun til ákvæða hollustureglugerða frestaði Heilbrigðiseftirlitið afgreiðslu og óskaði viðbragða umsækjenda þar sem húsnæðið uppfyllir ekki kröfur reglugerðar um salernisaðstöðu og handlaugar í kennslustofum.
Skólastarf hófst í unglingaskólanum Nú í byrjun síðustu viku með 34 nemendum að Flatahrauni 3.
Greint er frá þessu í nýjasta tölublaði Fjarðarfrétta sem kemur út á morgun.
Bæjarstjóri upplýsti á bæjarstjórnarfundi í dag að sendar verði athugasemdir til Framsýnar og óskað eftir tillögum til úrbóta innan 14 daga. Sagði hann heppilegra hefði húsnæðið verið í lagi áður en starfsemin hófst en leit svo á að málið væri í eðlilegum ferli.