fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirSkólamálÍ lagi í Hafnarfirði en ekki í Reykjavík

Í lagi í Hafnarfirði en ekki í Reykjavík

Stytting viðverutíma á leikskólum kemur niður á mörgum fjölskyldum þó prósentan sé lág

Hildur Björk Pálsdóttir

Hildur Björk Pálsdóttir, foreldri barns á leikskóla í Hafnarfirði sendi bæjarstjórn og fræðsluráði bréf þann 5. desember sl. þar sem hún gagnrýnir þá ákvörðun að takmarka viðveru leikskólabarna frá áramótum við hámark 8,5 klst. á dag, og segir að það muni koma sér illa við þá foreldra sem síst skyldi.

Þann 20. nóvember síðastliðinn samþykkti Fræðsluráð Hafnarfjarðar styttingu á viðveru leikskólabarna sem frá áramótum mun takmarkast við 8,5 klst. á dag.

Í frétt á heimasíðu Hafnarfjarðar 21. nóvember, segir að þetta sé liður bæjarins í að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að þessi ákvörðun eigi að stuðla að betri líðan barna.

Í bréfi til bæjarstjórnar segir hún það frábært að Barnasáttmálinn sé í hávegum hafður og réttindi barna séu færð efst á forgangslistann.

„En ég tel að þessi ákvörðun, síður en svo, setji Hafnarfjörð í leiðandi sæti hvað varðar bætta heilsu og líðan barna. Ég tel hana skapa umhverfi sem veldur meiri streitu og óreiðu.“

Hildur bendir á að í pósti frá Fanneyju D. Halldórsdóttur, sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs, komi fram að fyrir 4,93% barna séu keyptar 9+ klst. í vistun fyrir börn í leikskólum bæjarins en að eingöngu 2,21% barna nýti þann tíma. Þessi ákvörðun mun því ekki hafa merkjanleg áhrif á 95,07% barna.

„Það mun hins vegar hafa töluvert mikil áhrif á rútínu hinna 2,21%-4,93% barnanna og það má ekki gleyma að taka tillit til þess að á bakvið hverja tölu er barn og heil fjölskylda.

Stór hluti foreldra leikskólabarna starfar ekki í Hafnarfirði en þarf að skila af sér 8 klukkustunda vinnudegi (og sumir 7 klst. og 51 mín frá áramótum). Það gefur fólki 30-39 mínútur til þess að keyra í og úr vinnu frá leikskólanum, eða 15-19,5 mínútur hvora leið. Sá tími reynist mörgum ómögulegur,“ segir í bréfi Hildar.

Hægt er að sækja um undanþágur og að vel rökstuddu máli geti fjölskyldur óskað eftir lengri viðveru barna skv. upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ en Hildur segir þetta hvergi hafa komið skýrt fram og ómögulegt að segja hvaða aðstæður eru taldar það vel rökstuddar að undanþága verði veitt og slíkar umsóknir geta líka sett fólk í mjög óþægilega stöðu.

Hildur telur það vera grafalvarlega þjónustuskerðingu að setja íbúum bæjarins þessa takmörkun. „Mér finnst hugmyndin um að börn séu styttra í dagvistun frábær, en umhverfið og samfélagið sem við búum við í dag, veitir okkur öllum ekki tækifæri til þess. Fjölskyldur sem hafa tækifæri til þess að hafa börnin sín í styttri tíma í skólanum gera það sannarlega, eins og sést líklega á raunnýtingu vistunartíma leikskólabarna bæjarins.“

Segist Hildur í bréfinu til bæjarstjórnar vonast til að bæjarstjórn endurskoði þessa ákvörðun og láti þessi takmörk ekki standa.

Hildur hefur engin formleg svör fengið við bréfi sínu fyrir utan svar frá fulltrúa í fræðsluráði sem baðst afsökunar á síðbúnu svari og að sögn Hildar sagði henni bara að athuga hvort hún gæti ekki sótt um undanþágu.

„Málið snýst auðvitað um miklu meira en bara mig og mína fjölskyldu eða stöðuna okkar í dag,“ segir Hildur.

„Þetta er orðið hluti af því sem við þurfum að hugsa um þegar við veltum því fyrir okkur hvort við ætlum að reyna að eignast barn númer þrjú. Þetta snýst ekki um að fá undanþágu fyrir okkur og núna – þetta snýst um þarfir allra í bænum.“

Hildur hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun og er þegar komin með 67 undirskriftir þar sem þessari ákvörðun er mótmælt. „Ég hef fengið mikinn stuðning frá bæjarbúum og heyrt að þetta sé farið að hafa miklar afleiðingar fyrir marga.“

74 mínútur í akstur og ekki náðist heill vinnudagur

Hildur tekur dæmi um einn dag í sínu lífi:

Í Hafnarfirði var vistunartími takmarkaður við 8,5 klst um áramótin.

Forsendur: Við erum 4 í fjölskyldu og búum í Hafnarfirði – 1 grunnskólabarn (sem fær fylgd í skóla) – 1 leikskólabarn – 2 foreldrar sem vinna inni í Reykjavík og eigum 1 bíl.

Við byrjuðum í grunnskólanum – fórum svo í leikskólann og vorum búin að koma barninu inn á deild kl. 08:00.

Maðurinn minn þurfti að vera kominn fyrst til vinnu, ég var komin til vinnu kl. 08:45. Ég skilaði af mér 7 klst. og 10 mín. í vinnu í gær. Svo var ég í 23 mínútur að komast í leikskólann – og gekk inn á leikskólann kl. 16:22.

Það fóru því 1 klst. 14 mínútur í akstur í heildina og ég náði ekki að skila af mér heilum vinnudegi.

Sambærileg ákvörðun í Reykjavík umdeildari

Í Hafnarfirði myndar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur meirihluta en í Reykjavík er Sjálfstæðisflokkur í minnihluta. Þar gagnrýna borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harðlega ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um styttingu viðveru barna í leikskólum þar en stefnan í Hafnarfirði er allt önnur hjá sama flokki.

Hefur sú gagnrýni verið áberandi í fjölmiðlum en minna hefur farið fyrir umræðu um ákvörðunina í Hafnarfirði.

Stytting vistunartíma barna í leikskóla getur orðið dýr fyrir sveitarfélag ef það verður til þess að foreldrar missi vinnu vegna þess að þeir þurfa að stytta vinnutíma sinn. Slíkt getur aukið álag á félagslega þjónustu og sé því ekki til hagsbóta, hvorki fyrir börnin né foreldrana.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2