Kennarar án kennsluréttinda voru 5,4% starfsfólks við kennslu haustið 2015.
Á árunum 1998–2008 var hlutfall starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins, sem var án kennsluréttinda, á bilinu 13–20%. Hlutfallið lækkaði eftir hrun um allt land og fór lægst í 4,1% haustið 2012. Síðan 2012 hefur kennurum án kennsluréttinda fjölgað ár frá ári og voru 5,4% haustið 2015. Þá var 261 starfsmaður við kennslu án kennsluréttinda og hafði fjölgað úr 216 haustið 2014.
Lægst var hlutfall kennara án kennsluréttinda á landinu í Reykjavík, þar sem 2,4% kennara vou án kennsluréttinda, og á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, 3,9%. Á tveimur landsvæðum var hlutfall kennara án réttinda hærra en 10%, á Vestfjörðum (16,9%) og á Suðurnesjum (14,5%). Á Vesturlandi og Norðurlandi vestra lækkaði hlutfall kennara án kennsluréttinda frá fyrra ári og hlutfallið var óbreytt á Austurlandi.
Körlum fækkar meðal starfsfólks við kennslu í grunnskólum
Haustið 2015 störfuðu 884 karlar við kennslu í grunnskólum landsins, 18,1% starfsfólks við kennslu. Körlum hefur farið hægt fækkandi meðal kennara frá 1998, þegar karlar voru 26,0% starfsfólks við kennslu. Á sama tíma hefur konum við kennslu fjölgað og voru 3.992 haustið 2015.
Haustið 2015 voru 112 konur starfandi skólastjórar í grunnskólum á Íslandi en voru 68 haustið 1998. Á sama tíma fækkaði körlum í skólastjórastétt úr 125 og voru 61 haustið 2015.
Meðalaldur kennara í grunnskólum heldur áfram að hækka
Meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum hefur farið hækkandi frá árinu 2000. Haustið 2000 var meðalaldur starfsfólks við kennslu 42,2 ár en var 46,6 ár haustið 2015. Á þessu tímabili hefur meðalaldur kvenkennara hækkað meira eða úr 41,8 árum í 46,6 ár. Meðalaldur karlkennara hefur hækkað úr 43,6 árum í 46,5 ár. Meðalaldur starfsfólks við kennslu án réttinda er töluvert lægri en réttindakennara og hefur svo verið á öllu tímabilinu. Haustið 2015 var meðalaldur kennara með kennsluréttindi 47,0 ár en meðalaldur kennara án kennsluréttinda 39,0 ár.
Heimild: Hagstofa Íslands