Alda Agnes Sveinsdóttir, leikskólastjóri í Stekkjarási, einum stærsta leikskóla Hafnarfjarðar hefur sagt stöðu sinni lausri eftir 16 ára starf.
Aðspurð segir hún sumaropnun leikskóla sé ekki ástæða uppsagnarinnar en klárlega hafi hún flýtt fyrir henni.
Mikil óánægja hefur verið meðal starfsfólks leikskóla með ákvörðun um að halda þeim opnum allt sumarið og telja að lítið hafi verið hlustað á þeirra rök.
Alda hefur þegar verið ráðin leikskólastjóri á Marbakka í Kópavogi, fimm deilda leikskóla við sjávarsíðuna. Tekur hún við því starfi 1. maí og er þegar búið að auglýsa eftir nýjum leikskólastjóra í Stekkjarási.
Fulltrúar Samfylkingar og Miðflokks lýstu í bókun á fundi fræðsluráðs í gær yfir áhyggjum í ljósi þeirrar óánægju sem vart hefur orðið í hópi starfsfólks leikskóla eftir að sumaropnun var samþykkt án samráðs og þvert á vilja starfsfólksins. Óttast þeir að atgervisflótti starfsfólks sé yfirvofandi.
Fræðsluráð þakkaði Öldu Agnesi Sveinsdóttur fyrir vel unnin störf og óskaði henni velfarnaðar.