fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSkólamálLeikskólum, leikskólabörnum og starfsfólki fækkar

Leikskólum, leikskólabörnum og starfsfólki fækkar

Minni árgangar en áður

Í desember 2015 sóttu 19.362 börn leikskóla á Íslandi og hafði fækkað um 576 (-2,9%) frá fyrra ári. Sú fækkun stafar af fámennari árgöngum, því hlutfall barna sem sækir leikskóla hefur ekki breyst að ráði. Alls störfuðu 5.966 í leikskólum í desember 2015 og hafði fækkað um 53 frá fyrra ári en stöðugildum fækkaði um 31.

Í desember 2015 var 251 leikskóli starfandi og hafði fækkað um fjóra frá árinu áður. Sveitarfélögin ráku 217 leikskóla en 34 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum. Flestir voru leikskólarnir árið 2009, þegar 282 leikskólar störfuðu á landinu.

Ófaglærðir eru rúmlega helmingur starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna

Í desember 2015 störfuðu 1.758 menntaðir leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi, eða 32% starfsmanna við uppeldi og menntun barna, og hefur fækkað um 202 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Starfsmönnum sem hafa lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum og leikskólaliðanámi fækkaði um 97 frá 2014. Ófaglærðir starfsmenn voru rúmlega helmingur starfsmanna við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2015 og hefur fjölgað árlega frá 2011. Ef litið er á stöðugildi eru ófaglærðir í 49% stöðugilda við uppeldi og menntun leikskólabarna.

Körlum fækkar meðal starfsmanna

Undanfarin ár hefur karlkyns starfsmönnum í leikskólum farið fjölgandi. Þeim fækkaði hins vegar um 34 á milli áranna 2014 og 2015 og voru 350 talsins í desember 2015. Karlar voru 5,9% starfsmanna, en voru 6,4% starfsmanna í desember 2014.

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fjölgar milli ára

Í desember 2015 nutu 1.979 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða 10,2% leikskólabarna. Börnum sem njóta stuðnings hefur fjölgað ár frá ári en hlutfallið var 3,7% þegar gagnasöfnun Hagstofunnar hófst árið 1998. Eins og undanfarin ár eru mun fleiri drengir í þessum hópi og nutu 1.304 drengir og 675 stúlkur stuðnings árið 2015.

Börnum með erlent ríkisfang fækkar en börnum með erlent móðurmál fjölgar

Árið 2001 voru 159 börn í leikskólum landsins með erlent ríkisfang, 1% leikskólabarna en 1.165 í desember 2015, eða 6% leikskólabarna. Börnum með erlent ríkisfang fækkaði í gagnasafni Hagstofunnar í fyrsta sinn frá því að upplýsingum ríkisfang var fyrst safnað árið 2001 og voru 69 færri í desember 2015 en á sama tíma 2014, þegar þau voru rúm 6% leikskólabarna.

Frá 2001 hefur börnum með erlent móðurmál fjölgað úr 755 (4,8% leikskólabarna) í 2.435 (12,6%). Börnum með erlent móðurmál fjölgaði um 238 á milli 2014 og 2015, um 10,8%. Pólska er algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna eins og undanfarin ár, og höfðu 935 börn pólsku að móðurmáli í desember 2015. Næst flest börn eiga ensku að móðurmáli (198 börn) og því næst filippseysk mál (139 börn).

Heimild: Hagstofan

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2