fbpx
Laugardagur, nóvember 16, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSkólamálÞað er leikur að læra í leikskóla!

Það er leikur að læra í leikskóla!

Dagur leikskólanna er í dag

Dagur leikskólans er í dag, 6. febrúar. Honum er ætlað að vekja athygli á starfi leikskólanna en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara sín fyrstu samtök. Í Hafnarfirði eru 17 leikskólar sem hver fyrir sig hefur markað sínar uppeldisáherslur og stefnu og hér hefur fjölbreytileiki í uppeldisstarfi fengið að dafna.

Orðið leikskóli er lýsandi fyrir það starf sem fer fram í þessari fyrstu menntastofnun sem flest börn kynnast. Börn læra í gegnum leik, þau læra með því að endurskapa og túlka umhverfi sitt í leik með öðrum börnum. Þau læra með því að gera mikilvægar tilraunir inni og úti með ólíkan og margvíslegan efnivið. Það er alveg víst að börn læra mest og best þegar þau eru í öruggu umhverfi því þar er gott að æfa sig að standa á eigin fótum og koma á framfæri vilja sínum og skoðunum. Þar er líka best að æfa samskipti við jafningja og í slíkum aðstæðum læra börnin að setja sig í spor annarra og sýna hluttekningu. Þau læra að vera þátttakendur í lýðræðissamfélagi þar sem ólíkar skoðanir eru virtar og tekið er tillit til þeirra.

Vegna þessa hér að ofan og margra annarra þátta er mikilvægt að í leikskólunum starfi fólk sem hefur skilning á því hvernig börn læra, þekki þroska þeirra og átti sig á því hvað eru raunhæfar kröfur til ólíkra einstaklinga. Of miklar kröfur draga úr sjálfstrausti og tilfinningu barna fyrir eigin getu á meðan of litlar kröfur draga úr lærdómsþorsta og gleði. Það er því verkefni fagfólksins að þekkja hvern einstakling og mæta honum á hans forsendum.

Árný Steindórsdóttir

Í kringum hvern leikskóla myndast samfélag. Að þessu samfélagi standa fjölskyldur barnanna, aðrir aðstandendur og starfsfólkið. Lítið en öflugt samfélag við hvern skóla sem á það sameiginlega markmið að hvert barn í skólanum njóti velgengni. Ekki bara stundum, heldur alla daga. Þessu litla greinarkorni fylgir sú áskorun til okkar allra sem að samfélagi leikskólanna stöndum og viljum sjá veg leikskólanna sem mestan um að tala á jákvæðan hátt um metnaðarfullt leikskólastarf, fagstarf leikskólanna, og standa með þessum mikilvægu menntastofnunum sem hlúa að velferð og námi yngstu bæjarbúanna.

Árný Steindórsdóttir, leikskólastjóri Hlíðarenda.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2