Frá árinu 2008 hefur fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar veitt 1-3 viðurkenningar á ári til einstakra skólaverkefna sem þykja til fyrirmyndar og einkennandi fyrir skapandi skólastarf í Hafnarfirði. Í ár hlutu þrír skólar viðurkenningu. Öldutúnsskóli og leikskólinn Álfaberg fyrir góðan starfsanda og skilvirka stjórnun og Hvaleyrarskóli fyrir fræðslu og fjölmenningarstarf á skólasafni.
Mikil starfsánægja og auknar framfarir í námi
Öldutúnsskóli hlýtur viðurkenningu fyrir góðan starfsanda og skilvirka stjórnun. Allar mælingar sem unnar hafa verið á skólastarfi í Hafnarfirði sýna jákvæðar niðurstöður í Öldutúnsskóla þ.á.m. ánægja með stjórnendur, mikil starfsánægja og auknar framfarir í námi nemenda. Sömuleiðis sýna mælingar ánægju foreldra með skólastarfið, allt í senn varðandi líðan nemenda, aga, einelti, upplýsingaflæði og skólastjórnun. Í viðurkenningunni felst þakklæti og hvatning til skólans um mikilvægi góðs starfsanda og samhengi þess við skilvirka stjórnun í skóla sem undirstöðu góðs starfsumhverfis fyrir nemendur sem eflir þá í leik og starfi og stuðli að góðri líðan.
Rík áhersla á fjölmenningarlegt starf og mikilvægi þess í nútímasamfélagi
Hvaleyrarskóli hlýtur viðurkenningu fyrir fræðslu og fjölmenningarstarf á skólasafni. Á skólasafni Hvaleyrarskóla hefur í mörg ár verið áhersla verið lögð á nýtingu skólasafnsins, þeirra möguleika sem safnið hefur upp á að bjóða og þannig stutt við nám nemenda. Skólasafnið hefur tekið virkan þátt í viðburðum eins og Mottumars og Bóka- og bíóhátíð barnanna, fjölmenningarverkefnum og læsisverkefnum. Í Hvaleyrarskóla hefur rík áhersla verið lögð á að tengja starfsemi skólasafnsins fjölmenningarlegu starfi og minna á mikilvægi fjölmenningar í nútímasamfélagi. Í viðurkenningunni felst þakklæti og hvatning til skólans um mikilvægi þess að veita öllum nemendum margvísleg tæklifæri til náms þar sem skólasafnið gegnir mikilvægu hlutverki í að mennta nemendur í nútímasamfélagi á tímum stafrænnar tækni.
Þróunarstarf er eðlilegur hluti af skólastarfinu
Leikskólinn Álfaberg hlýtur viðurkenningu fyrir góðan starfsanda og skilvirka stjórnun. Álfaberg er til húsa í húsnæði Engidalsskóla sem er hannað fyrir grunnskóla. Starfsfólk skólans undir forystu skólastjórnenda hefur aðlagað sig vel að aðstæðum, búið til námsumhverfi fyrir börnin sem þeim líður vel í og samstarf við foreldra verið til fyrirmyndar. Í skólanum er þróunarstarf eðlilegur hluti af skólastarfinu og nýjungar og þróun stöðugt í gangi, ekki síst í tengslum við læsisverkefni bæjarins, „Lestur er lífsins leikur“, þar sem menntaáherslur skólans hafa birst skýrt í kennsluáætlunum og skólanámskrá skólans. Í viðurkenningunni felst þakklæti og frekari hvatning til skólans um mikilvægi þess að skilvirk stjórnun sé virk, skýr sýn sé á uppeldismarkmið skólans, námsumhverfið aðlaðandi og gott samstarf foreldra og starfsmanna.
Hin síðustu ár hafa fjölmörg verkefni hlotið viðurkenningu fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar, verkefni sem hafa haft frumkvæði, fagmennsku og ábyrgð að leiðarljósi og ýta undir samstarf, hagnýtingu og þróun í skólastarfi og kennslufræði.