fbpx
Laugardagur, janúar 18, 2025
HeimFréttirSkólamálVígsla nýja leikskólans á Völlum

Vígsla nýja leikskólans á Völlum

Börnin byrjuðu í morgun

Bjarkalundur leikskóli opnaður-46
Svava Björg Mörk leikskólastjóri fær afhentan lyki að skólanum úr hendi bæjarstjóra.

Bæjarstjóri afhenti Svövu Björk Mörk leikskólastjóra lyklavöldin að nýja leikskólanum Bjarkalundi sem tekinn var í notkun í dag. Fjölmenni var við athöfnina, leikskólafólk, stjórnmálamenn, foreldrar og fleiri.

Horft á barnið sem getumikinn einstakling

Að sögn Svövu Bjarkar starfar leikskólinn í anda Reggio Emila aðferðarinnar þar sem leitast er við að horfa á barnið sem getumikinn einstakling. Svava, sem áður starfaði á leikskólanum Bjarma, segist virkilega ánægð með nýja húsnæðið og segir að fyrstu börnin hafi komið í skólann í morgun og þau síðustu muni koma á mánudaginn.

Bjarkalundur leikskóli opnaður-23
Fanney Dóróthe Halldórsdóttir fræðslustjóri

Sameiginleg gildi og tengslanet leikskólans og einstaklinganna

Fanney Dóróthe Halldórsdóttir fræðslustjóri sagði í ræðu sinni að starfsemi þessa nýja skóla geri það m.a. að verkum að út frá inntökureglum bæjarins séu nú engir biðlistar inn á leikskólana. „Öll börn ættu að geta komist að hjá dagmóður eða á leikskóla í bæjarfélaginu.“

„Tasmaníumaðurinn Bill Mulford, skilgreinir samfélag sem hóp einstaklinga með sameiginlegar hugmyndir, samskiptareglur, tengsl og stuðning sem einstaklingar innan hópsins skapa með samskiptum sínum og tengslum hver við annan. Félagsauðurinn innan hópsins hjálpar þeim að ná sameiginlegum markmiðum um vöxt og gæði. Félagsleg samskipti og tengsl innan hóps, sem byggð eru á sameiginlegum viðhorfum, gildismati, skuldbindingu og væntingum eru forsendur blómstrandi samfélags. Með því sameinar hópurinn krafta sína til að vinna að tilteknum málstað eða viðfangsefni og skapar afl til að ná árangri umfram það sem einstaklingar gætu náð einir og sér.

Í því samhengi sem hér er talað um er fólgin skuldbinding, sameiginleg gildi og tengslanet stofnunarinnar – leikskólans – og einstaklinganna allra sem skapa samfélag hans til að annast og mennta börnin okkar.

Börnin okkar eru því ekki eins og Palli sem var einn í heiminum og átti ekki samfélag með öðrum. Leikskóli er nefnilega ekki bara hús eða starfsemi innan húss heldur samfélag fólks með sameiginleg markmið, gildi, skuldbindingu og tengsl. Samfélag sem nær langt út fyrir steypta veggi byggingarinnar og skólalóðarinnar.“

Sagði hún að leikskólinn muni strax hefja samstarf við Háskólann á Akureyri um þróunarverkefni í læsi.

Bjarkalundur leikskóli opnaður-33
Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri ávarpar gesti.

Byggður án lántöku

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri sagði leikskólann að öllu leyti fjármagnaðan fyrir eigið fé Hafnarfjarðarbæjar.

„Nýframkvæmdir á að fjármagna með eigið fé úr rekstri sveitarfélagsins. Það á ekki að gerast með lántökum.  Slíkar lántökur eru ávísun á tekjur í framtíðinni sem ætlaðar eru til þess að standa undir lögbundnum verkefnum á hverjum tíma og geta því ekki leitt til annars en auknar álögur á íbúa og/eða jafnvel enn frekari lántökur.  Ég tel rekstrarumhverfi sveitarfélöga í dag þannig að þau eiga að geta fjármagnað nýframkvæmdir með peningum úr rekstri ef rétt er staðið að rekstrinum,“ segir bæjarstóri.

Þannig sé stefnt að því að byggja nýjan grunn- og leikskóla í Skarðshlíð fyrir eigið fé, en framkvæmdir við þann skóla eiga að hefjast á næsta ári.

Engar lántökur Hafnarfjarðar í ár

Segir Haraldur að þrátt fyrir mikla skuldsetningu Hafnarfjarðarbæjar hafi þetta tekist samhliða því að gert sé ráð fyrir að greiða niður skuldir í ár fyrir a.m.k. um 2.391 millj. kr.  „Gangi allt eftir í ár eins og fjárhagsstaðan er nú verður árið 2016 fyrsta ár í rekstri Hafnarfjarðarbæjar a.m.k. frá árinu 2002 þar sem engar lántökur eru á vegum sveitarfélagsins.“

5.000 mann búa á Völlum

Á Völlum búa í dag rúmlega 5.000 manns og bætir leikskólinn því úr brýnni þörf fyrir leikskólarými í hverfinu. Tvær deildir við skólann hefja starfsemi sína núna með 50 börnum.

Heildarframkvæmdarkostnaður mun verða um 430 milljónir króna en ef meðtalinn er fyrri kostnaður vegna kjallara og plötu er áætlað að kostnaðurinn verði um 550 milljónir kr.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2