Snemma í nótt losnaði skútan Esja frá legufærum og rak upp í fjöru við Fjarðargötu.
Björgunarsveitum var gert viðvart en ákveðið var að tryggja skútuna og bíða til morgunflóðs enda lá skútan nokkuð vel skorðuð í grjótgarðinum og var að hluta á lofti.

Um kl. 10 var farið að flæða undir hana og dró slöngubátur Siglingaklúbbsins Þyts skútuna á flot og bátur Björgunarsveitar Hafnarfjarðar var í viðbragðsstöðu.

Ekki náðist í formann Þyts við vinnslu fréttarinnar en félagið á legufærin og hefur umsjón með skútunum tveimur sem við þær liggja.
Esja er nokkuð stór skúta af gerðinni Bavaria 50 Cruiser og er í íslenskri eigu. Hún er um 15 m löng og 4,5 m breið og er með 5 káetum.
Skútan var faratæki „Seiglanna“, hóps 36 kvenna sem sigldi í kringum Ísland árið 2021 en það mun hafa verið í fyrsta sinn sem seglskúta með eingöngu konur í áhöfn siglir í kringum Ísland.
