Leikskólanum Vesturkoti var lokað í gær eftir að upplýst var að starfsmaður hafði sl. föstudagskvöld greinst með kórónuveiruna.
Öll börn, um áttatíu talsins og allir starfsmenn, um tuttugu talsins eru komnir í sóttkví og fara í sýnatöku. Allar ákvarðanir um framhaldið eru teknar í samráði við smitrakningarteymi almannavarna samkvæmd upplýsingum Særúnar Þorláksdóttur leikskólastjóra.
Systkini í Setbergsskóla sýktust af Kóvid-19
Í morgun var foreldrum barna í Setbergsskóla tilkynnt að í gærkvöldi hafi skólanum borist þær upplýsingar að systkin í skólanum hefðu greinst með Covid. Þau voru í skólanum föstudaginn 2. október en voru í sóttkví í gær og hafa því ekki komið í skólann frá því á föstudag.
Skólinn vinnur eftir fyrirmælum og leiðsögn smitrakningarteymis Almannavarna sem stýrir aðgerðum þegar slík mál koma upp í skólum.
Ekki þótt ástæða til að senda nemendahópa í sóttkví
Þar sem systkinin voru einkennalaus á föstudag og einkenni komu ekki fram fyrr en á sunnudag og mánudag er niðurstaða smitrakningarteymis Almannavarna sú, að ekki sé ástæða til að senda nemendahópa sem systkinin tengjast í sóttkví.
Smitrakningarteymi Almannavarna er nú að rekja hvaða krakka systkinin höfðu samskipti við um helgina og mun hafa samband við foreldra þeirra barna varðandi úrvinnslusóttkví.