Honum hlýtur að hafa brugðið ökumanninum á snjóruðningstraktornum sem var að moka snjó af göngustíg í Áslandinu þegar tönnin lenti á brunnloki með ótrúlegum afleiðingum.
Búnaðurinn sem festur er við traktorinn og heldur snjótönninni losnaði er boltar brotnuðu, eins og þeir eiga að gera við svona átak, og það má segja að traktorinn hafi klifrað upp á þennan búnað og endaði upp á endann eins og sést á myndinni hér að ofan.
Svo lítur út fyrir að traktorinn sé gjörónýtur og í einum hnút en svo var alls ekki því tjónið er sagt mun minna en ætla má, slitnar vökvaslöngur, skemmdur vatnskassi, boltar og fleira svo ekki eigi að taka langan tíma að koma traktornum í lag. Eins og sjá má á myndunum hér er ástandið ekki eins svakalegt og ætla má af myndinni hér að ofan.
Þennan traktor keypti Hafnarfjarðarbær fyrir rúmum áratug en var nýlega seldur verktaka sem sér um mokstur á forgangsleiðum.
Ljósmyndir: Aðsendar