Nú fer að styttast í að Anton Sveinn McKee og Hrafnhildur Lúthersdóttir keppa í sundi á Ólympíuleikunum. Klaus Jürgen Ohk þjálfari Hrafnhildar aðstoðar sundfólkið eftir megni en hann er aðeins sem gestaþjálfari á leikunum.
Anthony Nesty, gullverðlaunahafi frá Surinam í 100 m flugsundi á Ólympíuleikunum í Seoul 1988, þjálfaði Hrafnhildi fyrir leikana á Aruba en hann er aðstoðarþjálfari í Gator Swim Club í háskólanum þar sem Hrafnhildur hefur æft í Florida. Hann þjálfar nú lið frá Surinam sem keppir á leikunum og hefur hann verið með Klaus og Hrafnhildi á sundlaugarbökkunum.
Aðeins ein æfing er í dag vegna opnunarhátíðarinnar. Sundfólkið þarf að hvíla og tekur því ekki þátt í hátíðinni.
Anton Sveinn keppir á morgun
og Hrafnhildur á sunnudag
Anton Sveinn mun hefja keppni í 100 m bringusundi á morgun kl. 18:10 að íslenskum tíma. Hann verður á 6. braut í 3. riðli en alls eru keppendur 46 og komast 16 bestu áfram í milliriðla. Anton á 11. besta tímann og ætti því að eiga góða möguleika á að komast áfram. Komist hann í milliriðla mun hann synda kl. 02:08 eða 02:16 að íslenskum tíma aðfararnótt sunnudags.
Fylgjast má með árangri Antons Sveins hér (ath. íslenskir tímar)
Hrafnhildur mun einnig hefja keppni í 100 m bringusundi en undarásir eru á sunnudaginn kl. 17:05 að íslenskum tíma. Hún keppir í 4. riðli og verður á 3. braut. Hún á þriðja besta tíma keppenda í riðlinum. 43 keppendur eru í undanrásum og komast 16 bestu áfram í milliriðla. Hún á 9. besta tíma keppenda og ætti því að eiga góða möguleika á að komast áfram. Milliriðlar verða kl. 01:29 og 01:37 að íslenskum tíma aðfararnótt mánudags.
Fylgjast má með árangri Hrafnhildar hér (ath. íslenskir tímar)
HUH! hvatning tekin upp á Thorsplani
Á morgun kl. 13 hafa bæjarbúar verið hvattir til að mæta á Thorsplan þar sem ætlunin er að hrópa HÚH! til hvatningar sundfólkinu okkar og fleiri hróp. Þetta verður tekið upp og sent út. Sjá nánar hér.