fbpx
Þriðjudagur, nóvember 12, 2024
target="_blank"
HeimFréttirStarfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar hefur verið lögð niður vegna áhugaleysis bæjaryfirvalda

Starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar hefur verið lögð niður vegna áhugaleysis bæjaryfirvalda

Starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar hefur verið lögð niður, skv. ákvörðun aðalfundar þann 29. október 2024.

Var tillaga lögð fyrir fundinn um að aðalfundurinn ákvæði að leggja niður starfsemi félagsins og afhendi bæjarstjórn Hafnarfjarðar eignir félagsins til varðveislu uns félagið hefji starfsemi á ný, skv. ákvæðum í lögum félagsins. Var tillagan samþykkt og félögum og áhorfendum í gegnum tíðina þakkað fyrir samstarfið, „leikinn, vináttuna, stuðninginn og gleðina, og fyrir að gera LH að þeim einstaka gullmola sem það hefur verið“.

Í tilkynningu frá félaginu segir að þessi ákvörðun hafi átti sér afar langan aðdraganda og hafi verið tekin einróma af fundarmönnum, en fundinn sátu félagar sem flestir hafa starfað áratugum saman hjá leikfélaginu. „Þó ákvörðunin hafi reynst félagsmönnum afar þungbær, er þakklæti þó efst í huga fyrir þann fjársjóð sem félagið skilur eftir sig.“

Áhugaleysi bæjaryfirvalda

Leikfélag Hafnarfjarðar, sem á sér langa og merka sögu, hefur verið í húsnæðisvanda um langt skeið, fengið tímabundið húsnæði hér og þar en ekki hefur verið brugðist við óskum félagsins um viðunandi húsnæði. Félagið hefur verið á ýmsum stöðum í gegnum tíðina, í Gúttó, Bæjarbíói, gamla Lækjarskóla, í skrifstofuhúsnæði Norðurstjörnunnar, í kapellunni í St. Jósefsspítala og í samkrulli með Gaflaraleikhúsinu í húsnæði við Víkingastræti sem nú hefur verið rifið. Félagið hefur marg oft leitað á náðir Hafnarfjarðarbæjar og skv. þessu hefur niðurstaðan ekki verið ásættanleg.

Úr skýrslu formanns á aðalfundi

„Hafnarfjarðarbær eða íbúar í bænum geta hvenær sem er kosið að endurvekja starfsemi félagsins. Það er ósk okkar að svo verði, að stjórnendur bæjarins sjái mikilvægi þess að styðja við áhugaleikhúsið sem valkost í flóru lífsgæðaeflandi félagsstarfs fyrir íbúa bæjarins. Við höfum ítrekað lagt áherslu á að áhugaleikfélagið sé heilsueflandi og að það sé lýðheilsumál að fólk hafi kost á því að skapa og læra og þroskast og dafna og tjá sig í því hlýja og uppbyggjandi umhverfi sem áhugaleikfélagið er. Leikfélag Hafnarfjarðar hefur verið athvarf og andlegt heimili fyrir mörg og reynst jafnvel lífsbjörg fyrir sum.

Í leikfélaginu er pláss fyrir alla en því miður er ekki alltaf pláss fyrir leikfélagið. Þannig er bara lífið. Þess vegna erum við á þessum tímamótum í dag og tilbúin til þess að leita á önnur mið þar sem okkur er tekið opnum örmum. Við erum tilbúin til þess að kveðja félagið okkar, sátt og þakklát, því við sem vorum félagið getum haldið áfram starfinu annars staðar og verðum áfram félagar í listinni um ókomna tíð.

Leikfélag Hafnarfjarðar mun lifa í frásögnum og heimildum og ekki síst í minningum okkar allra sem höfum iðkað leiklistina undir merkjum félagsins. Leikfélag Hafnarfjarðar deyr aldrei, það bara leggur sig um stund og safnar kröftum og fer svo fíleflt aftur í gang þegar aðstæður innan bæjarins eru því hagstæðari.

Megi það hvíla í friði þangað til.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2