Ásdís Fjóla Ólafsdóttir opnaði sýningu sína Brot í húsnæði frænku sinnar Heiðdísar Helgadóttur listakonu að Norðurbakka 1 á síðasta vetrardag.
Sterkar konur rauði þráðurinn í sýningunni
Á sýningunni BROT birtir Ásdís Ólafsdóttir okkur tilkomumikil figúratív olíumálverk þar sem sterkar konur eru rauðu þráðurinn.
Ásdís Fjóla Ólafsdóttir er fædd og uppalin í Hafnarfirði en hefur búið og starfað í Noregi síðastliðna áratugi. Hún er dóttir Hafnfirðinganna Freyju Ásgeirsdóttur (f. 1969-d. 2008) og Ólafs Þórs Sigmundssonar (f. 1960). Ásdís gekk í Öldutúnsskóla og Fjölbrautaskóla Breiðholts á listabraut og lærði til klæðskera og enn síðar tók hún bachelorgráðu í viðskiptafræði í Noregi.
Tók stóra skrefið 2021
„Ég er sjálflærð listakona en hef teiknað og málað allt mitt líf. Hef ég einnig verið á mörgum námskeiðum með færum listamönnum,“ segir Ásdís og segir að það hafi aðeins verið fyrir 5 árum síðan að hún fór að selja list sína.
„Mikið hefur gerst síðan þá. Ég hef verið með fleiri einkasýningar í Noregi og hef ég komist inn sem fastur listamaður í fjögur Gallerí í Noregi hingað til. Árið 2021 tók ég stóra skrefið þar sem ég hætti minni föstu vinnu eftir 23 ár til að stefna að fullu á listina.
Ég vann í tekstílbransanum, við hönnun og að fylgja eftir framleiðslu, svo ég get sagt að ég hef alltaf unnið með skapandi hluti.“
Ásdís er með vinnustofu sína á Nötteröy i Noregi, rúman klukkutíma fyrir sunnan Osló.
Á ferli sínum hefur Ásdís aðallega fengist við fígúrur, þá aðallega konur. Draumkenndar konur í stórum skala sem birtast okkur sem sterkir karakterar sem hafa gengið í gegnum mótlæti. Úr verða einföld en tilfinningarík svipbrigði sem kalla fram ólíkar tilfinningar áhorfandans.
Ásdís vinnur með módelum þar sem hún stillir þeim upp og málar í nokkrum lögum. Hún notast við límband til þess að rífa svo brot og brot úr hverju verki fyrir sig til þess að mynda svokölluð glitch til þess að ná fram þessum einstaka myndheimi sem einkenna verk hennar.
Í verkum Ásdísar sést áhugi hennar á að kanna margbreytileika kvenleikans með list sinni. Megináherslan er að búa til verk sem sýna sterkar og kröftugar en viðkvæmar konur og hvetja áhorfendur til að hugleiða eigin skilning á kvenleikanum.
„Með notkun minni á brotum (e.glitch) og fínlegum strokum leitast ég við að fanga fegurðina í bæði styrk og viðkvæmni í hverju málverki. Von mín er sú að þessi verk muni kalla fram styrkinn sem býr innra með konum og þeirri hugmynd um að við erum öll fær um að finna styrkinn innra með okkur en sýni jafnframt hversu auðveldlega þessi styrkur getur sprungið í mörg lítil brot,“ segir Ásdís en hún segir móttökurnar hafa verið algjörlega frábærar og að sýningin hafi gengið afar vel.
Sýningin BROT á Norðurbakka 1 stendur yfir til 30. apríl. Opið alla daga.