Eldur braust út í iðnaðarhúsnæði að Hvaleyrarbraut 22 upp úr hádegi í dag og allt tiltækt slökkvilið barðist lengi dags við mikinn eld. Undir kvöld hafði slökkviliði tekist að ná tökum á eldinum en þá var húsið talið ónýtt.
Áfram var þó unnið að slökkvistarfi og stórvirk vél notuð til að rífa niður hluta af húsinu.
17 manns voru skráðir til heimilis í húsinu en ekki er vitað hversu margir voru inni þegar eldur braust út en talið var að tekist hafi að koma öllum út.
Engin heimild var til íbúðar í húsinu og skv. teikningum var húsið iðnaðarhúsnæði og skrifstofur. Húsið var byggt á sjötta áratugnum undir starfsemi Lýsis og mjöls en síðar var húsnæðið endurbyggt.
Miðað við það hversu hratt eldurinn braust út taldi talsmaður slökkviliðsins nokkuð víst að brunavarnir hafi ekki verið í lagi, ekki síst þegar horft væri til þess hversu hratt eldurinn barst á milli brunahólfa.
Mikinn reyk lagði yfir Hvaleyrarholtið og langt upp í land og mátti sjá reykinn víða að, m.a. úr Hvalfirðinum.
19 brunahólf
Í brunahönnun frá 2006 er húsið sagt ein brunasamstæða, samtals 2.494 m², skipt niður í 19 brunahólf á þremur hæðum. Ákvæði voru um að í húsinu væri viðurkennt brunaviðvörunarkerfi.
Breytingar voru samþykktar á húsnæðinu 2015 og yfirfarðar af brunahönnuði en síðustu breytingar á teikningum voru samþykktar 2016.