fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirTekið jákvætt í tillögur um framkvæmdir á Óla Runs túni

Tekið jákvætt í tillögur um framkvæmdir á Óla Runs túni

Umræða um fjárhagsáætlun í ráðum bæjarins

Umhverfisráð hafnaði öllum tillögum Samfylkingarinnar sem vísað hafði verið til ráðsins úr bæjarstjórn nema einni.

Ráðið tók hins vegar jákvætt í tillögur um að ráðist verði í framkvæmdir á Óla Runs túni sem miði að því að auka lífsgæði og stuðli að meiri útivist og samveru fjölskyldunnar. „Sem aftur leiðir til betri andlegrar- og líkamlegrar heilsu. Mikilvæg fjárfesting til framtíðar sem mun borga sig margfalt þegar til lengri tíma er litið,“ sagði jafnframt í tillögu Samfylkingarinnar við framlagningu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.

Umhverfis- og framkvæmdaráð vísaði tillögunni til skipulags- og byggingarráðs sem sér um skipulagsmál. Skv. núgildandi skipulagi er Óla Runs túnið grænt svæði og opið svæði skv. aðalskipulag. Hins vegar hefur verið lagt til að þar verði byggð íbúðarhús sem ekki hefur fallið í kramið hjá nágrönnum og fjölmörgum íbúum.

Ekki kom fram í tillögum Samfylkingarinnar hvaða framkvæmdir á túninu ætti að ráðast í en ljóst er að túnið getur haft miklu meira aðdráttarafl en það hefur í dag. Túnið er hins vegar merkilegt fyrir það að þarna var síðast slegið og hey hirt aðeins með aðstoð hesta og var það gert fram undir 1970.

Skoða á svæði fyrir vetraríþróttir

Um aðrar tillögur Samfylkingarinnar var bókað í ráðinu: „Framkomnar tillögur Samfylkingarinnar um náttúruperlur í umhverfi okkar og þróun á útivistarsvæðum eru flestar nú þegar í vinnslu eða undirbúningi og því þegar tryggt fjármagn til þeirra á fjárhagsáætlun næsta árs. Tillögu um leiksvæði fyrir þá sem stunda vetraríþróttir í bænum eða upplandinu er vísað til skipulags- og byggingarráðs með beiðni um að farið verði yfir þau svæði sem hægt er að stunda vetraríþróttir í bæjarlandinu og tekið til skoðunar að þau verði merkt sérstaklega. Ennfremur að skoðað verði með ný svæði til þess að stunda vetraríþróttir.“

Sópun gatna til að minnka svifryk

Umhverfis- og framkvæmdaráð vísaði tillögu Miðflokksins um að veita 10 milljónum króna til hreinsunar gatna til að draga úr svifryki í andrúmslofti að vetrarlagi í bænum til umfjöllunar á umhverfis- og skipulagssviði og óskaði eftir greinargerð um núverandi þjónustustig og kostnað við gatnahreinsun og tillögu að aðgerðaáætlun. Þegar aðgerðaáætlun liggur fyrir verður tekin afstaða til þess hvort auka þarf við fjármagn í málaflokkinn.

Fjölgun og lagfæring göngu/hlaupa- og hjólastíga

Umhverfis- og framkvæmdaráð vísaði svo tillögu Viðreisnar, um að farið yrði í umfangsmiklar aðgerðir til að fjölga og laga göngu/hlaupa og hjólastíga, til umfjöllunar á umhverfis- og skipulagssviði og óskar eftir að unnin verði greinargerð um stíga í bæjarlandinu sem verði síðan nýtt til þess að gera aðgerðaáætlun um úrbætur.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2