Umhverfis og auðlindaráðuneytið fór á síðasta ári þess á leit við Umhverfisstofnun að ekki verði gert ráð fyrir þynningarsvæði í starfsleyfum álvera héðan í frá og því var unnið út frá því að svo yrði í nýju starfsleyfi ISAL, álveri Rio Tinto á Íslandi í Straumsvík.
Töldu forsvarsmenn Rio Tinto á Íslandi að þrátt fyrir að ekki verði þynningarsvæði í kringum athafnasvæði ISAL sé mikilvægt að í kringum svæðið sé skilgreint viðeigandi öryggissvæði þar sem skýrð verða mörk leyfilegrar starfsemi og íbúabyggðar. Var slíkt öryggissvæði rætt á fundi ISAL og Hafnarfjarðarbæjar 13. febrúar 2019.
Rio Tinto á Íslandi óskaði því eftir viðræðum við Hafnarfjarðarbæ um skilgreiningu á slíku svæði með gagnkvæma hagsmuni fyrirtækisins og bæjarins að leiðarljósi.
ReSource International hefur gert mat á dreifingu mengunarefna frá starfsemi álvers Rio Tinto á Íslandi.
Útbjó fyrirtækið loftdreifilíkan af þeim efnum sem starfsleyfi Rio Tinto setur mörk á innan þynningarsvæðisins og svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og mat hvort breytingar hafa átt sér stað eftir uppfærslu á hreinsibúnaði og annarra aðgerða til að draga úr loftmengun frá starfseminni.
Í skýrslu fyrirtækisin kemur fram að reiknaður styrkur loftkennds flúoríðs fór yfir viðmiðunarmörk (0,3 µg / m3) á vaxtartíma gróðurs innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar fyrir öll árin 2014-2018.
Þess ber þó að geta að reiknaður styrkur úr loftdreifilíkaninu er hærri en hefur mælst á loftgæðastöðinni á Hvaleyrarholti.
Aftur á móti ber spá fyrir dreifingu HF og styrkur uppsafnað flúors í gróðri vel saman, þ.e. styrkurinn er mestur næst álverinu, hærri í ríkjandi vindátt og fellur sem fjær dregur álverinu.
ReSource leggur í skýrslu sinni áherslu á að frekari loftgæða- og gróðurmælingar verði gerðar vestan við álverið og á þeim stöðum sem fyrirhugað er að byggja upp á í samráði við eftirlitsaðila og umhverfis- og heilbrigðisyfirvöld.
Það væri gert til þess að staðfesta niðurstöður líkansins og einnig til þess að ná enn betur utan um dreifingu mengunarefna á svæðinu.
Telur fyrirtækið til bóta að hafa auka mælistaði sem bjóða upp á að mælt sé öll efni á sama stað sem á að fylgjast með og nefnir sérstaklega að að gott væri að hafa eftirlit með loftkenndu flúoríði og flúor uppsöfnun í gróðri á sama mælipunkti.
Þá telur ReSource brýnt að horft sé til heildarumhverfisþátta þegar metið er hvaða starfsemi henti á fyrirhuguðum uppbyggingarsvæðum.
Varfærnisleg mörk
Birtir fyrirtækið tillögu að nýjum öryggismörkum sem kæmi þá í staðinn fyrir núverandi þynningarsvæði. Minnkar svæði verulega og stærsti hluti iðnaðarsvæðisins í Hellnahrauni fellur þá utan öryggismarkanna.
ReSource gerir tillögu að öryggismörkum í kringum álverið sem byggð er á ofangreindum reiknuðu niðurstöðum og grundvallast á hvar áætlað er að viðmiðunarmörkin 0,3 µg/m³ fyrir loftkennt flúoríð liggja. Segir í skýrslunni að ef skoðuð séu viðmiðunarmörk fyrir öll efnin og reiknaða dreifingu á þeim yfir þynningarsvæðið og svæði takmarkaðrar ábyrgðar þá sé það einkum reiknaður styrkur flúoríðs sem fari yfir þau mörk innan umhverfismarka í kringum álverið.
Því telur fyrirtækið að hægt sé að draga ný umhverfismörkmiðað við jafngildislínurnar 0,3 µg/m³ fyrir loftkennt flúoríð vitandi það að önnur efni fara ekki yfir sín viðmiðunarmörk utan jafngildislínanna fyrir flúoríð. Þetta séu því ystu mörk fyrir þau mengunarefni sem voru skoðuð. Þar sem að ADMS líkanið ofmetur styrk flúoríðs verða þessi mörk að teljast varfærnisleg.
Reiknaður styrkur innan þynningarsvæðis:
Brennisteinsdíoxíð (SO2)
- Reiknað 1 klst. meðalgildi fyrir SO2 fór ekki yfir mörk (350 µg/m3) á tímabilinu 2014 – 2018. Hæstu einstaka 1 klst. gildi voru á milli 186 til 236 µg/m3.
- Reiknað 24 klst. meðalgildi fór ekki yfir mörk (125 µg/m3) fyrir árin 2014 til 2017.
- Árið 2018 fór reiknaður styrkur brennisteinsdíoxíð (SO2) 11 sinnum yfir sólarhringsmörk. Hæsta reiknaða 24 klst. gildi var 141,9 µg/m3 . Þessi hæstu einstöku gildi mældust yfirleitt í um 150-300 m fjarlægð suðvestur og norðaustur af kerskálunum.
- Reiknað langtímameðaltal (almanaksár) fór ekki yfir mörk (20 µg/m3) fyrir tímabilið 2014-2018
- Reiknað vetrarmeðaltal fór ekki yfir mörk (20 µg/m3) fyrir tímabilið 2014-2018.
Svifryk (PM10)
- Reiknað 24 klst. gildi fór ekki yfir mörk (50 µg/m3) á tímabilinu 2014-2018.
- Reiknað langtímameðaltal (almanaksár) fór ekki yfir mörk (40 µg/m3) á tímabilinu 2014-2018.
Reiknaður styrkur innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar:
Loftkennt flúoríð (HF)
- Reiknaður styrkur loftkennds flúoríðs fór yfir viðmiðunarmörk (0,3 µg/m3) á vaxtartíma gróðurs innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar fyrir öll árin 2014-018.
- Þess ber að geta að reiknaður styrkur úr loftdreifilíkani er hærri en hefur mælst á loftgæðastöðinni á Hvaleyrarholti.
- Aftur á móti ber spá fyrir dreifingu HF og styrkur uppsafnað flúors í gróðri vel saman, þ.e. styrkurinn er mestur næst álverinu, hærri í ríkjandi vindátt og fellur sem fjær dregur álverinu.
Fagnar skýrslunni
Skipulags- og byggingaráð fagnar skýrslu Verkfræðistofunnar Resource um endurskoðun á þynningarsvæði álversins. Segir í bókun ráðsins að ljóóst sé að samkvæmt henni sé fullt tilefni til að minnka bæði þynningar- og öryggissvæðið.
Tekur skipulags- og byggingaráð undir það sem lagt er til í lok skýrslunnar að mælingum skuli fjölgað nær byggð í Vallarhverfi, Skarðshlíð og Hamranesi.
Uppfært 4.11.2020 kr. 14.50
Skoða má skýrsluna í heild sinni hér.