fbpx
Sunnudagur, júlí 14, 2024
HeimFréttirTelja að tillögur ungmennaráðs hafi verið misnotaðar af sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviða

Telja að tillögur ungmennaráðs hafi verið misnotaðar af sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviða

Ungmennaráð Hafnarfjarðar, Nemendafélag Flensborgar og notendaráð Hamarsins mótmæla lokun ungmennahússins Hamarsins

Sú ákvörðun meirihluta fræðsluráðs og fjölskylduráðs 29. maí sl. að m.a. loka ungmennahúsinu Hamrinum og segja öllu starfsfólki þess hefur farið illa í marga og ekki síst aðferðafræðin við ákvörðunina. Ekkert samráð var haft við ungmennaráð Hafnarfjarðar sem þó er mikið hampað á hátíðarstundum né við forstöðumann ungmennahússins. Þá var ekkert samráð haft við fulltrúa Samfylkingar og Viðreisnar í ráðunum og tillagan um lokunina ekki einu sinni kynnt í fundarboði. Þá var minnisblað ekki afhend fundarmönnum heldur var það aðeins lesið upp á fundinum. Ekki var vilji til að fresta afgreiðslu málsins á fundunum.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar, Nemendafélag Flensborgar og notendaráð Hamarsins hafa sent frá sér opið bréf vegna ákvörðunarinnar um lokun ungmennahússins Hamarsins þar sem ákvörðun fræðsluráðs og fjölskylduráðs Hafnarfjarðar um lokun ungmennahússins Hamarsins á fundum ráðanna þann 29. maí sl. er mótmælt.

Jafnframt gagnrýna þau samráðsleysi við okkur, hafnfirsk ungmenni, og þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem viðhöfð voru við undirbúning málsins.

Athyglisvert er einnig að fram kemur að svo virðist vera að tillögur ungmennaráðs hafi verið misnotaðar við afgreiðslu málsins en í opnu bréfi þessara þriggja samtaka segir:

„Þá fordæmum við að verið sé að misnota tillögur ungmennaráðs til að réttlæta ákvörðunina.“

En opna bréfið er ítarlegt og þar stendur jafnframt:

„Um samráðsleysi

Ekkert samráð eða samtal átti sér stað við hafnfirsk ungmenni í aðdraganda ákvörðunar fræðsluráðs og fjölskylduráðs Hafnarfjarðar um lokun ungmennahússins Hamarsins.

Ungmennaráð hefur ítrekað óskað eftir meira samráði við bæjarstjórn vegna mála sem varða hagsmuni ungs fólks og lagt fram málefnalegar og vel ígrundaðar tillögur um framtíðarskipulag ungmennahúsa Hafnarfjarðar, eins og þá að sameina ungmennahúsin Hamarinn og Músík og mótor í eitt öflugt ungmennahús sem staðsett yrði í núverandi húsnæði Bókasafns Hafnarfjarðar við Strandgötu 1. Sú tillaga var lögð fram á fundi fræðsluráðs þann 31. maí árið 2023. Við afgreiðslu tillögunnar bókaði fræðsluráð eftirfarandi:

Fræðsluráð bendir á að vinna er hafin við að skoða nýtingu og starfsemi Ungmennahússins Hamarsins og Músik og mótor. Skoða þarf hvort núverandi starfsemi Hamarsins sé ekki að henta ungmennum eins og lagt var upp með. Sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs skilar minnisblaði um nýtingu Hamarsins þegar það liggur fyrir og mun fræðsluráð byggja ákvörðun sína um næstu skref þegar það liggur fyrir. Fræðsluráð fagnar hugmynd ungmennaráðs um að Hafnarfjarðarbær reki stórt og öflugt ungmennahús og felur sviðsstjóra að kalla eftir nánari útskýringu frá ungmennaráði sem greinir betur ósk þeirra að sameiginlegu ungmennahúsi og þá einnig upplýsingum frá ungmennaráði um hvernig Hamarinn er að reynast ungu fólki í dag. Í framhaldi þeirrar vinnu skal skoða næstu skref í því að efla ungmennahús í Hafnarfirði.

Við þessa bókun er þrennt að athuga:

  • Í fyrsta lagi var sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs falið að skila minnisblaði um nýtingu Hamarsins sem átti að liggja til grundvallar ákvörðunar fræðsluráðs um næstu skref.
  • Í öðru lagi var sviðsstjóra falið að „kalla eftir nánari útskýringu frá ungmennaráði sem greinir betur ósk þeirra að sameiginlegu ungmennahúsi og þá einnig upplýsingum frá ungmennaráði um hvernig Hamarinn er að reynast ungu fólki í dag.“
  • Í þriðja lagi kemur fram í lok bókunarinnar að „í framhaldi þeirrar vinnu skal skoða næstu skref í því að efla ungmennahús í Hafnarfirði.“

Við bendum á að umrætt minnisblað, sem fjalla átti um nýtingu Hamarsins og átti að liggja til grundvallar frekari ákvörðunartöku, liggur ekki fyrir. Minnisblaðið sem lagt var fyrir á fundum fjölskylduráðs og fræðsluráðs miðvikudaginn 29. maí síðastliðinn tekur ekkert á nýtingu Hamarsins, en þar er að finna eina setningu sem fjallar um Hamarinn og er hún á þá leið að Hamrinum verði lokað.

Þá viljum við einnig koma því á framfæri að sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs hefur ekkert samráð eða samtal átt við ungmennaráð eða notendur Hamarsins varðandi tillögu að sameiginlegu ungmennahúsi eða óskað eftir upplýsingum frá okkur um hvernig Hamarinn reynist ungu fólki, eins og sviðsstjóra var falið að gera af fræðsluráði og átti að liggja til grundvallar frekari ákvarðanatöku.

Þrátt fyrir að ekkert af því sem sviðsstjóra var falið að gera á fundi fræðsluráðs þann 31. maí 2023 hafi verið gert þá ákvað meirihluti fræðsluráðs og fjölskylduráðs þann 29. maí síðastliðinn að samþykkja óvænta tillögu um að leggja ungmennahúsið Hamarinn niður. Af minnisblaði sem fylgdi tillögunni er ekki að skilja að nokkur greiningarvinna liggi að baki ákvörðuninni og þar eru engin efnisleg rök færð fyrir henni.

Nú heyrist sú söguskýring frá einhverjum fulltrúum meirihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að ákvörðun um lokun Hamarsins sé byggð á tillögu ungmennaráðs um stærra ungmennahús í núverandi húsnæði Bókasafnsins. Við fordæmum að upphafleg tillaga ungmennaráðs, sett fram í góðri trú á fundi fræðsluráðs þann 31. maí í fyrra, sé nú misnotuð í þeim tilgangi að telja fólki trú um að ákvörðun um lokun Hamarsins megi rekja til samráðs við ungmennaráð Hafnarfjarðar.

Ungmennaráð, Nemendafélag Flensborgar og Notendaráð Hamarsins lýsa vanþóknun sinni á þessum vinnubrögðum sem við teljum bæði óvönduð og ólýðræðisleg og ekki í takt við áherslur sveitarfélagsins um barnvænt sveitarfélag.

Um lokun Hamarsins

Hamarinn hefur frá stofnun verið athvarf fyrir ungt fólk í Hafnarfirði. Ákvörðun fræðsluráðs um lokun Hamarsins er reiðarslag fyrir öll ungmenni Hafnarfjarðar, en sérstaklega þau sem hafa nýtt sér þjónustu þess og þau sem eru að klára grunnskóla og hlakka til að nýta sér hana á komandi árum. Þar er unnið faglegt og mikilvægt hópastarf, t.a.m. útivistarverkefnið Úti-Hamarinn, Hinsegin Hamarinn, Spunaspilarar, Handavinnu-Hamarinn, Ungmennaráð Hafnarfjarðar, Ungforeldramorgnar og fleira.

Hamarinn hefur einnig verið vel nýttur af nemendum úr Flensborg, t.a.m. af nefndum skólans og Morfís-liði. Að lokum má nefna að hinsegin ungmenni úr Hamrinum eiga von á heimsókn frá írskum hinsegin ungmennum næsta haust, en framtíð þess verkefnis og annarra Erasmus+ samstarfsverkefna Hamarsins er í uppnámi vegna ákvörðunar fræðsluráðs og fjölskylduráðs.

Í tilkynningu sem Samfés sendi frá sér þann 31. maí segir m.a.: „Ungmennahúsið Hamarinn hafa verið aðildarfélagar að Samfés í nokkur ár. Á þeim tíma hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með faglegri þróun á starfi þeirra sem hefur verið fordæmisgefandi fyrir önnur ungmennahús á landinu. Fyrirmyndarverkefni hafa verið unnin hjá þeim sem hafa eflt og stutt við m.a. jaðarsetta hópa í okkar samfélagi og gefið þeim sjálfstraust til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu í Hafnarfirði og víðar. Þegar Samfés hefur fengið heimsóknir frá aðilum erlendis frá sem koma hingað til lands og sækja sér þekkingu á sviði tómstunda- og félagsmála hafa þau iðulega óskað sérstaklega eftir að fá kynningu á starfsemi þessa ungmennahúss, en þau hafa getið sér gott orðspor hér heima við og á erlendri grundu fyrir framsækið og metnaðarfullt starf í þágu ungmenna. Nái þessi ákvörðun fram að ganga er því ljóst að mikil fagþekking og reynsla af starfi með börnum og ungmennum tapist og er það ekki einungis missir fyrir börn og ungmenni í Hafnarfirði heldur allan tómstunda- og frístundavettvanginn á landsvísu.“

Við tökum undir orð Samfés um mikilvægi þess starfs sem unnið er í Hamrinum og við neitum að trúa því að bæjarstjórn vilji kasta því á glæ án þess að fyrir því liggi nein málefnaleg rök.

Að lokum hvetjum við bæjarstjórn Hafnarfjarðar til að falla frá ákvörðun fræðsluráðs og fjölskylduráðs, tryggja að Hamarinn fái að starfa áfram og eiga þess í stað virkt og einlægt samtal við hafnfirsk ungmenni um raunverulegar leiðir til að styrkja ungmennahúsin í bænum.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar,
Nemendafélag Flensborgar og
Notendaráð Hamarsins.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2