fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirTelja ekki heimild til greiðslu bílastæðagjalds gegn því að gera ekki bílastæði

Telja ekki heimild til greiðslu bílastæðagjalds gegn því að gera ekki bílastæði

Vilja fjölga íbúðum að Suðurgötu 36 þrátt fyrir ákvæði í nýlegu deilskipulagi

Í gildandi skipulagi Suðurgata – Hamarsbraut frá 2011 eru ákvæði um að ekki megi fjölga íbúðum í þegar byggðum húsum og að leitast skuli við að leysa bílastæðamál innan lóðar.

Nú liggur fyrir tillaga að breyttu deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir fjölgun íbúða að Suðurgötu 36, þar sem áður var Laugabúð. Er gert ráð fyrir að á jarðhæð verði heimilað að fá samþykktar tvær íbúðir þannig að íbúðum á lóð fjölgi úr tveimur íbúðum í þrjár.

Fjölmargar athugasemdir

Skipulags- og byggingarráð samþykkti að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Suðurgötu 36 og var það staðfest í bæjarstjórn. Tillagan var auk þess grenndarkynnt aðliggjandi lóðarhöfum. Tillagan var auglýst frá 27.10.2020-8.12.2020 og bárust fjölmargar athugasemdir. Þær tillögur eru þó ekki birtar í fundargerð, heldur aðeins útdráttur úr þeim helstu.

Á fundi ráðsins þann 15. des. s.l. var óskað eftir greinargerð skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda. Greinargerð skipulagsfulltrúa var lögð fram og má lesa hana hér.

Núgildandi skipulag.

Helstu athugasemdir snúa að bílastæðum enda víða í þessu hverfi engin bílastæði eða fá innan lóðar og því nauðsynlegt að nýta bílastæði við götu. Aðeins er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum í deiliskipulagi á lóð Suðurgötu 36 og ekki mögulegt að bæta fleirum við.

Í athugasemdum íbúa segir m.a. að í þessari tillögu liggi ekki fyrir nein haldbær rök fyrir því að bílastæðaþörf sé á einhvern hátt minni en almennt er, og í raun miklu frekar að staðan varðandi bílastæðaframboð á þessu svæði sé almennt verri en gengur og gerist. Þá sé með engum hætti sýnt fram á að hægt sé að leysa þá þörf með einhverjum öðrum hætti.

„Ekkert kemur raunar fram í auglýstri tillögu um hvernig leysa eigi bílastæðamál tengdum fjölgun íbúða við Suðurgötu 36 og augljóst að það verður ekki gert innan lóðar þar sem bílastæði eru nú þegar of fá miðað við fjölda og stærð íbúða sem þar eru fyrir. Samkvæmt okkar upplýsingum byggði afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs á þeim forsendum að lóðarhafi muni geta „keypt sig frá“ þeim hluta skipulagsskilmálanna,“ segir m.a. í athugasemdum íbúa í nágrenninu.

Skipulags- og byggingarráð óskaði eftir áliti bæjarlögmanns um innheimtu bílastæðagjalds og lögmæti þess sbr. greinargerð skipulagsfulltrúa.

Óheimil skattheimta

Í athugasemdum íbúa segir að í þessu tilviki sé erfitt að sjá að nokkurt endurgjald sé af hendi sveitarfélagsins, þ.e. ekkert í framlagðri tillögu gefi tilefni til þess að ætla að sveitarfélagið hyggist nýta sér tekjuöflunina til þess að auka bílastæðaframboð í tengslum við veitingu heimildar til fjölgunar íbúða umfram það sem heimilt er í gildandi skipulagi eða veita nokkra aðra þjónustu, aðra en þá að veita undanþágu frá almennum skilmálum gildandi skipulags.

„Slíkar álögur flokkast sem skattheimta sem erfitt er að sjá að uppfylli í þessu tilviki lögmætisreglu. Sé það rétt að málið hafi verið kynnt með þessum hætti í skipulags- og byggingarráði og afgreiðsla ráðsins þar af leiðandi byggð á þessum forsendum, gerum við sem íbúar að lágmarki þá kröfu að bæjarstjórn tilgreini á hvaða lagagrundvelli sú afgreiðsla er byggð,” segir m.a. í athugasemdum.

Samþykkt um bílastæðasjóð frá 2017

Í samþykkt um bílastæðasjóð fyrir Hafnarfjörð, sem samþykkt var 15. febrúar 2017, segir í 1. grein að verkefni Bílastæðasjóðs sé að eiga bílastæði fyrir almenning utan skilgreindra lóða í miðbænum og víðar við götur og opin svæði.

Þar segir jafnframt: „Komi til fjölgunar íbúða í þegar byggðum hverfum og deiliskipulag liggur ekki fyrir skal gera ráð fyrir fjölgun um 1 bílastæði á hverja íbúð inni á viðkomandi lóð. Gangi það ekki eftir skal greiða fyrir bílastæði skv. gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfirði. Greiðsla gjaldsins felur ekki í sér rétt til bílastæðis í tiltekinni götu eða á öðrum bílastæðum sveitarfélagsins.”

Reglurnar er aðeins að finna sem fylgiskjal með fundargerð og má lesa hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2