fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirTelja ekki heimilt að veita afmörkuðum hópi tekjulágra afslátt á fasteignaskatti

Telja ekki heimilt að veita afmörkuðum hópi tekjulágra afslátt á fasteignaskatti

Ætti viðmiðið að vera við 65 ár hafi einstaklinga þá fengið rétt á ellilífeyri?

Bæjarráð Hafnarfjarðarkaupstaðar óskaði álits bæjarlögmanns á því hvort heimilt sé að veita afmörkuðum hóp tekjulágra einstaklinga eða fjölskyldna í Hafnarfirði afslátt af fasteignaskatti á fjárhagsárinu 2021.

Hafði Sigurður Þ. Ragnarsson, fulltrúi Miðflokksins lagt til að að afsláttur fasteignaskatts til tekjulágra einstaklinga eða fjölskyldna á komandi fjárhagsári verið óháður aldri.

Í minnisblaði bæjarlögmanns kemur fram að í 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélag koma fram lögbundnar undanþágur frá framkvæmd álagningar fasteignaskatts. Í lögunum komi fram að sveitarstjórn sé aðeins heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt skv. 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Þar segir:

„Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.“

Lagaramminn geri því ekki ráð fyrir heimildum umfram þessa heimild til lækkunar eða niðurfellingar fasteignaskatta að mati bæjarlögmanns.

Sjá má minnisblaðið hér.

Hægt að sækja um ellilífeyrir 65 ára

Almennt á fólk rétt á töku ellilífeyris frá 67 ára aldri og við þann aldur hafi afslátturinn verið miðaður þó aldursmörkin séu hvergi nefnd í lögunum.

Hins vegar kemur fram á vefnum island.is/ellilifeyrir að við 65 ára aldur megi sækja um ellilífeyri og tengdar greiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins.

Ef taka ellilífeyris hefst við 65 ára aldur þá lækka greiðslurnar fyrir hvern mánuð sem flýtt er um.

Þannig ættu tekjulágir sem hafa fengið rétt til töku ellilífeyris 65 ára líka að eiga rétt á lækkun fasteignagjalda sé miðað við ákvæði í lögunum.

Þá kom fram í frétt Fjarðarfrétta um málið að Ómar Smári Ármannsson, fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn og bæjarfulltrúi, hafi frá 2014 sent erindi til Hafnarfjarðarbæjar þar sem hann bendir á að það sé óréttlátt að miða við 67 ára eftirlaunaaldur þar sem misjafnt sé hvenær fólk fari á eftirlaun. Bendir hann t.d. á að lögreglumenn séu í raun skikkaðir á eftirlaun 65 ára.

Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu Hafnarfjarðarbæjar og núverandi meirihluta að erindum sé svarað hratt og örugglega hefur Ómar Smári engin svör fengið enn frá Hafnarfjarðarbæ.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2