Við útskrift nemenda við Flensborgarskólann, 20. desember sl., var afhentur styrkur úr Fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar en hann hlaut Þorsteinn Kristinsson sem stundar nám í Lundi í Svíþjóð.
Þorsteinn Kristinsson stundaði nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði á árunum 2004 til 2008 og útskrifaðist með stúdentspróf á félagsfræði- og náttúrufræðibraut. Síðan þá hefur Þorsteinn lokið BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc námi í Asíufræðum frá Lundarháskóla í Svíþjóð, auk þess að nema kínversku við National Taiwan Normal University í Taívan.
Þá hefur Þorsteinn einnig stundað rannsóknir í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands og kom hluti þeirrar vinnu nýlega út í formi bókar um alþjóðastjórnmálafræðikenningar smáríkja þar sem Þorsteinn er meðhöfundur að þremur köflum. Sú bók nefnist Small States and Shelter Theory: Iceland‘s External Affairs og er gefin út af Routledge útgáfunni.
Síðustu tvö ár hefur Þorsteinn lagt stund á doktorsnám í alþjóðastjórnmálum við stjórnmálafræðideild Lundarháskóla, með sérstaka áherslu á „rísandi veldi“ í alþjóðakerfinu og svæðissamruna í Austur Asíu. Sem hluta af þeim rannsóknum mun Þorsteinn halda til Taívan í byrjun árs 2019 og dvelja sem gestafræðimaður við National Taiwan University í Taipei. Til þessa verkefnis hlaut hann svokallaðan „Taiwan Fellowship“ frá utanríkisráðuneyti Taívan sem er ætlað að veita erlendu fræðafólki brautargengi til slíkra dvala.