Þrjár ódýrustu fiskibúðirnar eru í Hafnafirði samkvæmt nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ. Litla fiskbúðin Helluhrauni var oftast með lægsta verðið, í 15 tilvikum af 30 en Fylgifiskar Borgartúni var oftast með hæsta verðið eða í 8 tilvikum.
Oftast var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni. Á 10 af þeim 30 vörum sem kannaðar voru reyndist 40-60% munur á hæsta og lægsta verði og í 15 tilfellum var yfir 60% verðmunur. Mesti verðmunurinn var á laxi í sneiðum, 135% eða 2.238 kr. munur á kílóinu.
Fjórar verslanir neituðu fulltrúum verðlagseftirlitsins um þátttöku í könnuninni. Þetta voru Fiskbúðin Hafberg, Fiskbúð Fúsa, Melabúðin og Fiskbúðin Vegamót.
Í helmingi tilfella yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði
Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri yfir 60% en í 15 tilfellum af 30 var munurinn yfir 60%, þarf af í 5 tilfellum yfir 80%. Í 10 tilfellum var munurinn á hæsta og lægsta verði 40-60% en einungis í 5 tiflellum undir 40%. Mestur verðmunur var á laxi í sneiðum en hæsta verðið var 135% hærra en það lægsta. Hæsta verðið var í Fylgifiskum, 3.900 kr. en það lægsta í Fjarðarkaupum, 1.662 kr. kg.
Næst mestur var munurinn á kílóverðinu af frosnum fiskibollum, 124% sem voru dýrastar í Gallerý Fisk, 1990 kr. en ódýrastar í Fisk Kompaní á Akureyri, 890 kr. kg. Einnig var mikill verðmunur á ýsuhakki sem var dýrast í Hafinu, 1.990 kr. en ódýrast í Litlu Fiskbúðinni Hafnafirði, 990 kr. kg og munar því 1.000 kr. á kílóverðinu eða 110%.
Ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila i könnuninni þvi aðeins beinn verðsamanburður.