fbpx
Þriðjudagur, janúar 21, 2025
HeimFréttirAtvinnulífTóku fyrstu skóflustungu að nýjum höfuðstöðvum Icelandair í Hafnarfirði

Tóku fyrstu skóflustungu að nýjum höfuðstöðvum Icelandair í Hafnarfirði

Mikil hagkvæmi að flytja alla starfsemi í Hafnarfjörð að sögn forstjóra

Starfsfólk Icelandair tók fyrstu skóflustungu að nýjum höfuðstöðvum félagsins á Flugvöllum í Hafnarfirði í gær að viðstöddu fjölmenni.

Starfsmenn Iclandair sem tóku fyrstu skóflustunguna.

Byggingin mun tengjast núverandi húsnæði félagsins sem hýsir þjálfunarsetur og tæknideild. Mun hún ná yfir stóran hluta af núverandi bílastæðum og gerbreyta ásýnd hússins. Nú hefjast framkvæmdir af fullum krafti og stefnt er að því að taka nýja húsnæðið í notkun undir lok árs 2024.

Í nýjum höfuðstöðvum verður mikil áhersla lögð á góða vinnuvist og fjölbreytt vinnurými, þannig að hægt verði að velja vinnuaðstöðu eftir verkefnum hverju sinni. Byggingin mun einkennast af sterkum kjarna sem styður við öflugt samstarf, nýsköpun og eflir tengsl. Haldin var samkeppni um hönnun nýrra höfuðstöðva á síðasta ári og bárust átján tillögur frá innlendum og erlendum arkitektastofum. Að endingu var tillaga Nordic Office of Architecture valin. Nordic er alþjóðleg arkitektastofa með skrifstofu á Íslandi.

20 milljón króna skófla

Skóflan sem notuð var við fyrstu skóflustunguna var smíðuð og hönnuð af starfsmönnum í viðhaldsskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli og er hún meðal annars búin til úr hreyfilblaði sem flaug tæpar 60.000 klukkustundir í hreyfli Boeing 757 flugvélar. Til gamans reiknuðu starfsmennirnir út hvað hlutirnir í skófluna kostuðu, væru þeir keyptir nýir, og fengu þeir út að þeir myndu kosta 20,2 milljónir kr. og því sennilega dýrasta skófla Íslandssögunnar og þó víðar væri leitað.

En hún var þó ekki eina skóflan sem notuð var, því fulltrúar hinna ýmsu deilda fyrirtækisins tóku einni skóflustungu að nýju höfuðstöðvunum.

Sjálfbærni að leiðarljósi

Teikning sem sýnir fyrirhugaða stækkun. Teikningar hafa þó ekki verið samþykktar.
Útlitsmynd af nýju höfuðstöðvunum.

Icelandair leggur mikla áherslu á sjálfbærni og verða nýjar höfuðstöðvar hannaðar, byggðar og reknar eftir BREEAM umhverfisvottunarkerfinu. BREEAM umhverfisvottuninni (British Research Establishment Environmental Assessment Method) er ætlað að greina og draga úr umhverfisáhrifum bygginga.

Veruleg tækifæri

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair sagði í samtali við Fjarðarfréttir að hluti af starfseminni hafi verið flutt til Hafnarfjarðar 2014-2015, flughermana og þjálfunarsetrið og þá strax hafi sá möguleiki verið opinn að flytja alla starfsemina á höfuðborgarsvæðinu til Hafnarfjarðar. „Og það erum við að gera núna,“ segir Bogi. „Við sjáum veruleg tækifæri í því að vera með alla skrifstofuaðstöðu okkar og í raun alla aðstöðu okkar sem ekki er á eða við flugvelli. Það er hagræði í því og við fáum betra samstarfs meðal starfsfólks og milli deilda. Þá erum við að sjá breytingar á kröfum um vinnuaðstöðu og skrifstofuaðstöðu. Fólk vill meiri sveigjanleika og það hentar fólki og fyrirtækjum og hér munum við búa til fleiri rými fyrir teymisvinnu en við höfum haft áður. Við sjáum bara veruleg tækifæri í þessu og við erum þá að færa alla starfsemina nær hjartanu í Keflavík. Í framtíðinni munu þá allt starfsfólk koma saman hér, hvort sem fólk er að fara að fljúga út í heim eða að mæta á skrifstofuna. Fólk kemur meira saman, það er markmiðið með þessu,“ sagði Bogi.

Hvað er nýja húsnæðið stórt?

„Það sem við erum að bæta við hérna er um 5.200 m². Við erum svo með lóð lengra til austurs og það er ákveðinn sveigjanleiki í því en þetta er það sem við erum að horfa til núna að taka þetta skref.“

Að sögn Boga eru um 3.500 stöðugildi en stærstur hlutinn er í framleiðslunni.  Segir hann að horft sé til þess að geta haft um 6-700 starfsmenn í Hafnarfirði. „En við erum ekki að gera ráð fyrir því að starfsmenn hafi sérstaka aðstöðu fyrir sig því fólk verði einhverja daga í teymisvinnu og einhverja daga t.d. úti í heimi og við erum því að skapa aðstöðu fyrir verkefnamiðaða vinnu,“ segir Bogi.

Aðspurður segir hann ekki þekkja dæmi þess að starfsfólk hafi flutt í Hafnarfjörð eftir flutning á starfsemi þangað en segir að ávallt sé hreyfing á fólki og þessi staður henti sumum betur og öðrum ekki eins vel.

Fyrstu skóflustungunni var vel fagnað.
Lóðin Flugvellir 1 er um 43 þúsund m² með nýtingarhlutfall 0,5 og nú er heimilt að byggja þar 21.500 m² byggingu. Í viljayfirlýsingu Hafnarfjarðarbæjar og Icelandair kemur fram að unnuð skuli að því að stækka lóðina um 6.000 m² til vesturs og um allt að 6.500 m² til austurs. Mun mjög stór hluti lóðarinnar verið notaður undir bílastæði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2