Halldór Árni Sveinsson ákvað nýlega að hætta útsendingum frá bæjarstjórnarfundum í Hafnarfirði, en þessi vegferð með bænum hófst fyrir 40 árum, þegar hann sá um útvarp á afmæli bæjarins á 75 ára afmælinu.
Þegar bæjarstjórnin hélt síðasta fund sinn fyrir jól var þessara starfsloka minnst og forseti bæjarstjórnar færði Halldóri Árni blómvönd frá bæjarstjórn og bæjarstjóri þakkaði honum góða þjónustu og samveru.
Tólfti bæjarfulltrúinn
Stundum var gantast með að Halldór væri 12. bæjarfulltrúinn enda hafði enginn setið fundi bæjarstjórnar lengur en hann.
Fjórða útvarpsleyfið
Fyrst voru fundirnir sendir út í útvarpi en Halldór fékk úthlutað fjórða leyfinu til útvarps og hóf reglulegar útsendingar í árslok 1987. Fyrsta útsendingin var úr bæjarráðssalnum þar sem samþykkt var fjárhagsáætlun fyrir árið 1988. Fljótlega hófust reglulegar útsendingar frá bæjarstjórnarfundum, og þegar Halldór hóf sjónvarpsútsendingar 1995 í félagi við Sæmund Stefánsson, Erling Kristensson og Lúðvík Geirsson jókst umfjöllun um bæjarmálefni m.a. með vikulegum þætti, Miðvikudagsumræðunni. Þá gerði hann yfir 100 þætti sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni Sýn 1992-1994, þar sem fjallað var um málefni tengd bænum og einnig hafnfirskum listamönnum.Í byrjun nýrrar aldar var byrjað að
streyma bæjarstjórnarfundunum og tóku nemendur í fjölmiðladeild Flensborgarskólans þátt í þróun þeirrar tækni, sem með tímanum leysti útvarpsútsendingarnar af hólmi.
Mikil heimildasöfnun
Upptökur frá bæjarstjórnarfundum eru aðeins brot af þeim upptökum sem Halldór Árni hefur gert í Hafnarfirði en hann hefur verið óþreytandi við að taka upp á hinum ýmsu viðburðum í bænum og á gríðarlegt safn sem nú er verið að skrá og færa yfir á stafrænt form.
Kveður sáttur
Halldór kveðst kveðja sáttur þetta skemmtilega hlutastarf, hann hafi persónulega kynnst öllum bæjarfulltrúum á þessum langa ferli og sú vinátta sé honum efst í huga. Nú taki önnur verkefni við.
Aðspurður um minnisstæð atvik frá bæjarstjórnarfundum segir hann margt spaugilegt auðvitað hafa gerst í hita leiksins. En sjálfsagt er ég bundinn trúnaði um margt af því, en um þetta verður allt hægt að lesa í „Endurminningum úr bæjarstjórn“ sem kemur út eftir 50 ár í 4 bindum – þegar trúnaði af efninu hefur verið aflétt.