Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fundaði í gær og setti Kristinn Andersen fundinn í Hafnarborg skv. venju. En það var fátt venjulegt við þennan fund því Kristinn var einn bæjarfulltrúa í salnum.

Með honum var Ívar Bragason lögmaður sem ritaði fundargerð og Halldór Árni Sveinsson sem tók upp fundinn að venju og streymdi út á netið.

Aðrir bæjarfulltrúar sátu heima hjá sér eða á sínum vinnustað og greinilegt var að fundarformið hafði áhrif á fundarmenn. Ræður þeirra voru styttri og umræður minni. Jafnvel ekki einu sinni um milljarðs kr. lántöku bæjarsjóðs. Á stundum var vísað til þess að málið hafi verið vel kynnt í bæjarráði og mátti þá spyrja sig hvort bæjarstjórnarfundur væri aðeins formsatriði.

Einn bæjarfulltrúi hafði það á orði við blaðamann að honum fyndist svona fundir mjög undarlegir og mun erfiðara að hafa yfirsýn.