Við tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð er gert ráð fyrir tveimur nýjum göngubrúm yfir brautina. Önnur verður á milli núverandi göngubrúar og mislægu gatnamótanna við Strandgötu en hin á móts við Ásvallalaug og Þorlákstún.
Brýrnar voru smíðaðar í Póllandi og var landað úr skipi í Straumsvíkurhöfn. Fyrri brúin var flutt að sínum stað í gærkvöldi en sú síðari var sett á sinn stað í dag.
Brýrnar eru áberandi ljósbláar og munu eflaust vera nokkuð áberandi í umhverfinu en meira er um vert að þær munu auka aðgengi á milli Hvaleyrarholts og Vallahverfisins.
Brýrnar eru engin smá smíð, 46 metra langar og því þurfti sérútbúið farartæki til að flytja þær á sinn stað. Reykjanesbrautinni var lokað um skamman tíma á meðan brúnni var ekið frá Straumsvík að sínum stað við Þorlákstún. Eftir það var umferð um Reykjanesbraut úr vestri beint um Krýsuvíkurveg og Ásbraut en úr austri var umferðinni beint um mislægu gatnamótin við Strandgötu og Ásbraut. Mynduðust langar biðraðir á Strandgötunni þegar fólk var á leið úr miðbænum og út á Velli og hins vegar á Reykjanesbrautinni á milli kirkjugarðsins og Strandgötu.
Nokkuð greiðlega gekk að hífa brúna á sinn stað. Aðeins þurfti að brjóta úr stöplinum sunnan megin og skera í burtu steypustyrktarjárn svo brúin passaði nákvæmlega en starfsmenn Ístaks unnu fumlaust að því að koma brúnni á sinn stað og Reykjanesbrautin um síðir opnuð fyrir almenning.
Þó brúin sé komin á sinn stað er mikil vinna eftir því í raun var aðeins verið að koma fyrir burðarvirki brúarinnar.