Sigurður Valgeirsson, íbúi í Mosahlíðinni fór í aðgerð á hné fyrir stuttu og nýtti góða veðrið til að fara á smá rúnt á golfhjólinu sínu. Honum til undrunar rakst hann á ýmsar hindranir á vegi sínum.
Víða voru til dæmis háir kantar fram af göngustígum. Á einum stað þurfti hann að snúa við og fara til baka og finna aðra leið.
Sums staðar enda göngustígarnir óvænt eins til dæmis í Setberginu. Þar segir hann að þyrfti að merkja gangbrautir yfir göturnar yfir á næsta göngustíg. Þarna segir hann krakka á reiðhjólum fara á mikilli ferð þvert yfir götuna.
Á nokkrum stöðum þurfti hann að fara út á götuna og fara eftir henni því hann komst ekki upp á gangstéttina.
Bútur á einni gangstétt í endanum á Stekkjarberginu er búinn að vera ófrágenginn í um 20 ár þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar!
„Það eru margir stígar illa farnir sem mætti gjarnan laga – sérstaklega fyrir hjólastólafólk,“ segir Sigurður og það taka örugglega margir undir ábendingar hans.
Sömu kvartanir og árið 1980
Til gamans má geta að á íbúafundi í Víðistaskóla árið 1980 var kvartað yfir sömu vandamálum en þá var lýst hvernig barn í vagni hefði það þegar fara þyrfti yfir allar þær hindranir sem væru í vegi ef farið væri eftir gangstéttum bæjarins.
Kannski gera megi átak í að laga þetta í bænum svo einhverjir geti farið og tekið við verðlaunum fyrir gott aðgengi á gangstéttum í Hafnarfirði?