fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirBirkibergið er stjörnugata ársins - Nunnurnar fengu heiðursviðurkenningu

Birkibergið er stjörnugata ársins – Nunnurnar fengu heiðursviðurkenningu

Nokkuð margar ábendingar bárust frá bæjarbúum um fallegasta garðinn, fallegustu lóðina við fyrirtæki og fallegustu götuna fyrir Snyrtileikann 2020 sem Hafnarfjarðarbær stendur fyrir.

Fulltrúar í umhverfis- og framkvæmdaráði, ásamt starfsmanni, hafa verið á ferð og flugi í sumar til þess að skoða vandlega allar tilnefningarnar ásamt því að koma sjálfir með tillögur að viðurkenningum.

„Hafnarfjörður er fallegur bær og mikið um fagra garða og snyrtilegar lóðir og gaman er að sjá hversu bæjarbúar er iðnir og áhugasamir um að gera fallegt i kringum sig og vonandi munu þessar viðurkenningar hér í dag, hvetja aðra bæjarbúa til dáða,“ segir í umsögn dómnefndarinnar.

Steinar, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar kynnti hinar ýmsu trjáplöntur sem gestir fengu með sér heim.

Viðurkenningarnar voru veittar að venju í Höfðaskógi hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar en allir fengu tré með sér heim að lokinni athöfn.

Stjörnugata ársins er Birkiberg

Birkiberg er stjörnugata bæjarins í annað sinn

„Mikið er gaman að keyra þessa fallegu götu í Setberginu og sjá hversu vel íbúar standa saman að því að halda við görðum í götunni, því árið 2007 var þessi gata einnig valin stjörnugata. Það er alveg sama hvert litið er alls staðar er snyrtimennskan til fyrirmyndar, gróðurinn fjölbreyttur og öll götumynd virkilega falleg. Margir fallegir garðar eru í þessari götu og fær einmitt einn garður viðurkenningu í dag. Það er ekki sjálfgefið að íbúar standi svo vel saman en íbúar Birkibergs fá hrós fyrir samstöðuna og eins fyrir þá hvatningu sem þeir gefa til okkar hinna til að standa okkur betur í að snyrta nærumhverfi okkar allra.“

Fallegustu og snyrtilegustu garðarnir

Birkiberg 42

Haraldur Árnason og Valgerður Bjarnadóttir

Birkiberg 42

„Aðkoman vakti strax athygli. Holtagrjót á lóðarmörkum með fallegum rósum ásamt öðrum gróðri. Hellulögnin ný sópuð og grasið alveg sérstaklega fallegt þar sem búið var að kantskera þannig að plönturnar nutu sín vel í flötinni. Þegar inn í garðinn var komið þá blasti snyrtimennskan við, allt pallasvæði var til fyrirmyndar og vel viðhaldið, holtagrjótið alveg sérstaklega fallegt í þessum garði og þarna var búið að koma fyrir fjölbreyttum gróðri sem passaði vel við umhverfið. Blóm í kerjum og krukkum gáfu fallegan lit með gráu grjótinu.“

Klukkuberg 1a

Jóna Guðrún Jóhannsdóttir og Þorgils Einar Ámundason

Klukkuberg 1a

„Þegar útsendari bæjarins fór í þennan garð í miklu rigningarveðri vakti snyrtimennskan strax athygli. Gönguleiðin að húsinu var svo snyrtileg, með fjölbreyttum gróðri í upphækkuðum beðum, að maður gleymdi alveg rigningunni um stund. Fyrir framan aðkomudyrnar voru pottar með fallegum plöntum og þegar inní garðinn var komið lá strax fyrir að þarna voru eigendur greinilega áhugamenn um að gera garðinn sinn fallegan og hafa snyrtilegt í kringum sig. Dvalarsvæði voru fjölbreytt með grasi, hellum, grús- og timburgönguleiðum og þarna mátti sjá áhrif frá japönsku görðunum þar sem einfaldleikinn er hafður að leiðarljósi og náttúrulegur efniviður er notaður í garðhönnun. Í þessum garði er örugglega gott að taka nokkrar jógaæfingar.“

Blómvellir 13

Guðlaug Steindórsdóttir og Sævar Örn Guðmundsson

Blómvellir 13

„Þessi garður er ákaflega fallegur og verið það um árabil. Aðkoma að húsi er opin og tekur vel á móti gestum og gangandi. Hönnun er nútímaleg þar sem mikið er um hellulagða fleti sem hafa verið mubleraðir upp með fallegum húsgögnum, gróðri í pottum, fallegum kerjum og afskornum blómum í vasa. Alls staðar þar sem litið er, er snyrtimennskan í fyrirrúmi og hafa eigendur einnig hugað að nærumhverfi sínu sem er til mikillar fyrirmyndar. Fallegur garður í nýju hverfi í bænum.“

Malarskarð 13-15

Steinunn Eiríksdóttir og Haukur Geir Valsson
Baldur Örn Eiríksson

Malarskarð 13-15

„Það er með mikilli ánægju sem þessir 2 garðar í parhúsi fái viðurkenningu, en þeir eru spegilmynd af hvor öðrum og eru því alveg eins. Virkilega flottur ungur garður þar sem ungt fólk hefur haft mikinn metnað í að gera fallegan garð umhverfis hús sitt. Þarna eru dvalarsvæði með heitum potti, fallegum gróðri og fallegri hleðslu sem fellur vel að umhverfi sínu. Þessi garður fær sérstaka hvatningarviðurkenningu hann er með þeim fyrstu sem eru tilbúnir í þessu nýjasta hverfi okkar og veitir nágrönnum innblástur og hvatningu.“

Norðurvangur 29

Ásmundur Jónsson og Margrét Alice Birgisdóttir

Norðurvangur 29

„Í Norðurbænum lúrir þessi fallegi garður sem er einstaklega snyrtilegur og fallega viðhaldið. Innan um hraunbolla og gjótur er búið að planta fjölbreyttu gróðurúrvali, búa til tjörn og þarna finnur maður strax friðinn og hversu þægilegt er að setjast niður og njóta í nálægð við hraunið og klettana. Dvalarsvæðin eru falleg og snyrtileg og greinilega hefur verið tekið til hendinni því einnig má finna mjög myndarlega ræktun matjurta ásamt því að þarna eru landnámshænur sem greinilega hafa það gott. Hérna er gott að koma og upplifa þann garðáhuga sem í þessum garði býr.“

Miðvangur 102

Halldór Leifsson og Anna Rósa Sigurgeirsdóttir

Miðvangur 102

„Mjög fallegur garður í Norðurbænum, aðkomugarðurinn er stór með einstaklega fallegri grasflöt og lágvöxnum gróðri og skemmtilegum fígúrum út við götu sem heilsa fólki sem gengur framhjá. Snyrtimennskan er einstök ásamt fallegum bakgarði þar sem er mikið úrval rósa, ásamt skjólsælu dvalarsvæði með húsgögnum og blómapottum. Lítið fuglahús í háum trjánum með fóðurskál dregur að sér smáfuglana. Blómapottarnir eru hannaðir af húsmóðurinni og gera garðinn enn skemmtilegri.“

Austurgata 37

Auður Kristín Árnadóttir og Einar Þór Harðarson

Austurgat 37

„Hér er falleg perla í gamla bænum, innan um kletta og hraundranga. Dásamlega fallegur ævintýragarður sem hefur verið gaman að heimsækja á 17. júní því eigendur hafa verið svo rausnarlegir að bjóða gestum og gangandi að koma í þennan garð. Þarna hefur verið mikil samvinna milli náttúru og hið manngerða umhverfis, því hraunið á stóran þátt í hversu vel heppnaður þessi garður er. Litla gróðurhúsið ásamt sturtuhausnum sem kemur úr klettinum er hluti af ævintýraveröldinni.“

Austurgata 40

Þóra Hrönn Njálsdóttir og Sigurjón Pétursson

Austurgata 40

„Stórglæsilegur garður þar sem allt viðhald er til fyrirmyndar, gróður vel hirtur, öll beð eru hrein og allir kantar vel klipptir í beinum röðum. Þetta er einn af fallegustu görðum bæjarins ásamt húsinu sjálfu en hér hafa eigendur greinilega sinnt vel húsi og garði þannig að eftir er tekið. Einstök snyrtimennska og metnaður í öllu sem þarna sést. Þessi garður er eins og skrúðgarður og er mikil bæjarprýði.“

Snyrtilegasti garðurinn við fyrirtæki

Óseyrarbraut 27b

Sólgarður; Björk Bjarnadóttir og Sölvi Steinarr

Óseyrarbraut 27b

„Vin á hafnarsvæði. Við Óseyrarbraut stendur hús með fallegum garði. Aðkoma og hús afar snyrtilegt með fjölbreyttu úrvali af gróðri og hinum ýmsu tegundum af hellum og steinum. Einstaklega kærkomið á annars gráu svæði, með yndislegu útsýni yfir Hvaleyrina og lónið. Það er ánægjulegt að sjá þegar fyrirtæki hér í bæ hafa jafnmikinn metnað og hér er, til þess að gera snyrtilegt í kringum hús sín.“

Karmelnunnurnar fengu heiðursverðlaun Snyrtileikans

Karmelklaustrið við Ölduslóð

Karmelklaustrið í Hafnarfirði – árið 1939 stofnuðu hollenskar Karmelnunnur klaustur í Hafnarfirði en 1984 tóku Karmelnunnur frá Póllandi við klaustrinu og eru þær 12 talsins í dag. Í klausturgarðinum er yndislegur garður sem nunnurnar hafa gert meira og minna sjálfar.  Í miðjum garði er Karmel fjall, en það fjall er í Palestínu og á þessu fjalli hófst búseta einsetumanna sem lifðu samkvæmt skipulagðri reglu sem var upphafið af reglunni eins og hún er í dag. Karmel þýðir garður.

Á 13. öld breiddist Karmelreglan út um alla Evrópu. Systurnar báru með sér hingað til lands nýjungar í grænmetisræktun og voru í upphafi ræktaðar grænmetistegundir sem fáir Hafnfirðingar höfðu séð enda á þessum árum aðallega ræktaðar hér kartöflur og rófur. Í garðinum er greinilega ákveðin hugmyndafræði en þar má finna griðarstað fyrir hverja og eina nunnu, ásamt litlum bænahúsum.

Mikil ró og kyrrð hvílir yfir þessum fallega klausturgarði og það er aðdáunarvert að sjá hversu mikla eljusemi hefur þurft til að koma þessum garði á legg. Mikil fjölbreytni er í trjám og gróðri ásamt ræktun grænmetis og berjarunna til eigin nota. Þarna má einnig finna jarðarber og í gróðurhúsi þeirra eru ræktuð vínber og ávaxtatré. Það dylst engum hversu nunnurnar á Ölduslóð hafa haft mikil áhrif á samfélag okkar hér í Hafnarfirði. Þær hafa verið samofnar menningu okkar og lífi í hjartnær 80 ár. Þær helga líf sitt trúnni á Jesú Krist og hefur bærinn okkar skipað stóran sess í bænum þeirra.

Fyrir þetta ber að þakka og er það með mikilli gleði sem við færum Karmelssystrun heiðurssjöldinn í ár.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2