Fjölmargir nota bökunarpappír á bökunarplötum þegar bakað er til að losna við að skrapa fastar matarleifar af plötum.
En þessi sakleysislegi pappír er kannski ekki eins saklaus og hann lítur út fyrir að vera og getur verið heilsuspillandi skv. upplýsingum frá danska neytendaráðinu Tænk.
Flúor í bökunarpappír
Skv. upplýsingum frá Tænk er venjulegur bökunarpappír húðaður með lífrænum flúorefnum. Sú yfirborðsmeðhöndlun gerir pappírinn bæði fitu- og vatnsfráhrindandi. Flúorefnin valda því að pappírinn harðnar ekki og maturinn brennur ekki við pappírinn.
Vandamálið er hins vegar að flúorefni eru hormónatruflandi sem við mikla upphitun blandast auðveldlega við matvælin. Sérstaklega feit matvæli draga til sín þessi efni.
Flúorefni eru hættuleg þar sem þau safnast fyrir í líkamanum, m.a. í nýru og lifur. Efnin eru sögð krabbameinsvaldandi og hormónatruflandi auk þess sem flúor getur skert gæði sæðis karlmanna, aukið hættu á fósturláti og minnkað árangur af bólusetningum. Þetta kemur fram í grein á danska vefnum Bolius.
Þess fyrir utan er bökunarpappírinn sagður skaðlegur fyrir umhverfið ef honum er hent úti í náttúrunni auk þess sem hann brotni illa niður.
Aðeins hættulegur við háan hita
Þó er, eins og kemur fram í greininni, flúrefnið sem pappírinn er húðaður með hannað til að þola mikinn hita og í raun þurfi hitinn í ofninum að fara vel yfir 230 °C svo hann verði hættulegur.
Svansmerktur bökunarpappír inniheldur ekki flúor og er því betri að nota en venjulegur bökunarpappír þar sem svansmerktar vörur mega ekki innihalda flúor.
Flúor finnst í ýmsum vörum svo sem:
- Pítsabökkum
- Örbylgjupopppokum
- Pappadiskum
- Bílabóni
- Skíðaáburði
- Fötum
- Húsgögnum
Heimild: www.bolius.dk