Íbúar sendu inn 15 ábendingar um snyrtilega og fallega garða í Hafnarfirði
Hafnarfjarðarbær veitir viðurkenningu fyrir fallega garða og snyrtimennsku í kringum fyrirtæki og félagasamtök ár hvert undir heitinu „Snyrtileikinn“.
Í ár bárust 15 ábendingar frá bæjarbúum um fallegasta garðinn, fallegustu lóðina við fyrirtæki og einnig bárust tilnefningar um fallegar lóðir hjá félagasamtökum ásamt fjölbýlishúsalóð. Engin tilnefning kom vegna götu og er því engin gata í bænum í ár útnefnd stjörnugata.
Eftirtaldar lóðir voru verðlaunaðar:
Fjóluhvammur 3
Þessi er garður hefur verið fallegur um árabil. Greinilega gott viðhald og mikið af fallegum og stæðilegum plöntum. Aðkoma að húsi tekur á móti gestum og gangandi. Fallegt og skjólsælt dvalarsvæði við hús. Þessi garður hefur afgerandi hlutverk í fallegri götumynd.
Garðavegur 6b
Sannkallaður verðlaunagarður þar sem nostrað hefur verið við hvert smáatriði og mikil ást og umhyggja lögð í garðinn. Garðurinn er lítill en öllu er hagalega fyrir komið og hver hlutur á sinn stað. Aðkoma að húsi, ásamt húsinu sjálfu, er smekkleg og snyrtileg.
Heiðvangur 18
Mjög fallegur garður þar greinilegt er að mikill áhugi á garðrækt er til staðar. Fjölbreytt úrval plantna og rósa með fallegu samspili palla, hellulagðra flata og grass. Lítil tjörn með vatnaliljum og stendur þar garðskáli. Hvert sem litið er, er fjölbreytni mikil og öll rými vel úthugsuð.
Hrauntunga 14
Hér er greinilega mikill garðyrkjuáhugi á ferð. Mikil fjölbreytni í gróðri og allt viðhald garðsins til fyrirmyndar. Alls staðar er búið að nostra við hvert smáatriði og sérstaklega gaman er sjá hversu útsjónarsamir eigendur hafa verið og byggt hús uppá gömlum trjástofni. Pallurinn tengist húsi á smekklegan hátt með litlu húsi fyrir unga fólkið. Snyrtimennskan er hér til fyrirmyndar og handbragð allt.
Lindarberg 52
Mjög snyrtilegur og fallegur garður með mikla fjölbreytni í gróðri. Þegar inn í garðinn er komið eru skemmtilegar hellulagðar gönguleiðir og öll beð vel snyrt og garðurinn í heild sinni mjög snyrtilegur. Mjög fallegur og gróinn garður í Setberginu. Aðkoma að húsi aðlaðandi og tekur vel á móti gestum.
Suðurgata 9
Hér hefur verið tekið til hendinni, garðurinn er nútímalegur með fallegum dvalarsvæðum með skemmtilegri lýsingu og mjög fallegum plöntum í mismunandi kerjum og pottum. Hugvitsamlega raðað upp og býr dvalarsvæðið til einskonar auka herbergi við húsið. Gróðurinn er fjölbreyttur og greinilega mikill áhugi á garðyrkju hér á ferð.
Snyrtilegasta fjölbýlishúsalóðin
Skipalón 5
Mjög skemmtileg og falleg fjölbýlishúsalóð við Skipalón 5 þar sem aðkoma að húsi er mjög snyrtileg og bakgarðurinn var fallegur með vel sleginni grasflöt með fallegum trjá- og runnabeðum ásamt garðhúsgögnum fyrir gesti og íbúa lóðarinnar. Lítið en fallegt leiksvæði tengist vel inn á dvalarsvæðið. Falleg sumarblóm í öllum beðum. Þessi lóð er til fyrirmyndar.
Heiðursverðlaun
Kirkjugarður Hafnarfjarðar fékk heiðursverðlaun í ár.
Í áranna rás hefur kirkjugarður Hafnarfjarðar verið sérstaklega snyrtilegur og fallegur. Mikill metnaður er lagður í hönnun og útfærslu hina mismunandi svæða og eru öll rými sérstaklega vel útfærð og í góðu samtali við húsbyggingar og einnig þá starfsemi sem garðurinn á að þjóna. Gönguleiðir eru snyrtilegar og upplýstar, aðstaða til að sinna leiðum ástvina er óaðfinnanleg. Allur frágangur opinna svæða hefur ávallt verið til mikillar fyrirmyndar og ekki síst um jólin en Hafnarfjarðarkirkjugarður á stóran þátt í að koma bænum í hátíðarskap með sínum fallegu ljósum á leiðum garðsins.
Kirkjugarðar Hafnarfjarðar eru sómi bæjarins og fær því heiðurskjöldinn í ár.