Áberandi hjólför eru eftir stóran jeppa eða annað farartæki á göngustígum S-A Helgafells og við Valahnúka og út á Víghólinn.
Er mjög óvenjulegt að sjá ummerki um akstur bíla á þessu svæði enda allur utanvegaakstur bannaður. Fjarðarfréttir hefur enga vitneskju um framkvæmdir á þessu svæði sem kalla á slíkan akstur.
Sífellt fleiri sjást á ferð á stígum á og við Helgafell og Valahnúka þó flestir virðast fara á fjallið og sömu leið til baka. Stígarnir eru flestir aðeins slóðar eftir gangandi fólk og í sumum tilfellum gamlir löngu aflagðir jeppaslóðar. Virðist fólki í flestum tilfellum líka aðstæður vel en sums staðar eru djúpir skorningar og drulla þar sem bera þyrfti í.
Einstaka dæmi eru um akstur vélhjóla sem markað hafa djúp spor í slóðann en jafnvel reiðhjól geta skemmt slóðana þar sem moldarkennt er og frost er að fara úr jörðu.