Lúpínan hefur lengi verið á milli tannanna á fólki en farið var að nota lúpínu sem landgræðslujurt við Hvaleyrarvatn um 1960. Síðan hefur lúpínan dreift sér mikið og í raun gríðarlega og litað heilu svæðin blá. Plantan er jarðvegsbætandi og undirbýr jarðveg fyrir t.d. trjágróður en hún eyðir einnig lágvöxnum gróðri sem fyrir er, m.a. lynggróðri.
Fjölmargir hafa áhyggjur af útbreiðslu hennar en hún er t.d. að stinga sér niður við Kleifarvatn og á Krýsuvíkursvæðinu og vilji er til að fjarlægja hana þaðan. Fái hún að vaxa óáreitt verður Krýsuvíkursvæðið aldrei sem fyrr og gamlar þjóðleiðir og minjar munu hverfa undir lúpínubreiður sem erfitt er að fara yfir.
Mikil eldhætta getur skapast af lúpínunni sem sást vel í Setberginu fyrir nokkrum árum er eldur var farinn að læsa sig í girðingar íbúðarhúsa þegar náðist að ráða niðurlögum eldsins. Lúpínan gerir alla yfirferð gangandi fólk erfiða enda sér fólk ekki hvað undir er. Kríuvarp hefur lagst af vegna þess að lúpínan hefur vaðið yfir varpstaði m.a. annar á Setbergsholtinu. Sagt hefur verið að lúpínan hopi á 30 árum en á 55 árum hefur lúpínan lítið hopað við Hvaleyrarvatn en þar hefur skógargróður aukist gríðarlega.
Önnur mun verri jurt veldur þó mörgum enn meiri áhyggjum, kerfillinn sem áberandi er undir Vesturhamrinum, ofan Lækjarskóla við Reykjanesbraut og á stórum svæðum við skógarvegi við Kaldárselsveg. Kerfillinn er hávaxnari en lúpínan og á því auðvelt uppdráttar. Hann gerir ekkert gagn, eyðir aðeins þeim gróðri sem fyrir er.
Fjölmörg sveitarfélög hafa farið í átak til að hefta útbreiðslu kerfilsins og eyða honum en ekkert hefur heyrst af því hér í bæ annað en að slá á kerfilinn undir Vesturhamrinum.
Unnin hefur verið skýrsla um útbreiðslu lúpínu í Reykjanesfólkvangi. Lesa má hana hér.