Fjarðarfréttir innti eftir áliti Umhverfsstofnunar á því að sturta snjó í sjóinn en Hafnarfjarðarbær taldi að slíkt væri óheimilt og lét aka snjónum nokkuð langa leið til förgunar.
„Við lítum svo á að mokstur á hreinum snjó falli ekki undir ákvæði um bann á varpi í hafið í 9.gr. l. nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda,“ segir K. Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun.
Hún segir þó að æskilegast væri að farið væri með snjóinn í settjarnir þar sem að hann getur innihaldið ýmiskonar efni; þungmálma, þrávirk efni úr olíu og örplast.
„Þar sem það er ekki valkostur gerum við ekki athugasemdir við að hann sé losaður út í sjó, ef gætt er að því að önnur efni af götunum fari ekki með og gætt sé að því að staðsetning losunarinnar fari ekki fram á viðkvæmu svæði,“ segir Sólveig í svari til Fjarðarfrétta.
Ekið með snjó langar leiðir og deilt um hvort megi sturta honum í höfnina